Skattbyrði barnafólks hefur aukist síðustu ár á Íslandi sökum hærri launa. Þetta sýnir ný skýrsla OECD um skattbyrði sem birt er á vef samtakanna.

Barnafólk í Ástralíu, Ungverjalandi, Írlandi og Nýja Sjálandi hefur greitt minni skatt vegna sérstakra skattaívilnana fyrir barnafólk en á sama tíma hefur skattbyrði aukist í löndum á borð við Grikkland, Ísland og Mexíkó. Í þeim löndum hafa tekjur aftur á móti hækkað og þar með hefur skattbyrði aukist.

Að meðaltali hefur hlutfall skattbyrði samanborið við greiðslur úr velferðarkerfi OECD landanna minnkað á árunum 2000 til 2006. Þrátt fyrir það greiða fleiri skatt en áður sökum tekjuaukningar en hærri tekjur hafa í mörgum löndum fært menn upp um skattþrep.

Ísland er á meðal þeirra þjóða þar sem tekjur hafa hækkað verulega á sama tímabili en samkvæmt skýrslu OECD hafa tekjur hækkað að meðaltali um 40% í eftirfarandi löndum, Tékklandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Íslandi, S-Kóreu, Mexíkó, Portúgal, Slóvakíu og Tyrklandi.

Þannig hafa einstaklingar færst upp um skattþrep en samkvæmt skýrslu OECD hefur verðbólga haft þau áhrif að skattbyrði einstaklinga hefur aukist á sama tíma. Þannig valda hærri tekjur aukinni skattbyrði (e. fiscal drag) nema til komi sérstakar aðgerðir á vegum hins opinbera.

Hér á landi hefur persónuafsláttur ríkisins haft þau áhrif að tekjuminni einstaklingar greiða lágan eða engan skatt en um leið og tekjurnar hækka hefur skattbyrðin aukist.

Í skýrslu OECD kemur fram að lækkun tekjuskatts hefur í mörgum ríkjum ekki alltaf lækkað skattbyrði einstaklinga þar sem verðbólga hefur verið há á sama tíma. Þar sem ákveðin skattþrep eru við lýði, svo sem hátekjuskattur eða hærri skattaprósenta eftir tekjum, hefur skattbyrði að sama skapi aukist mjög hratt.

Þegar OECD ríkin eru skoðuð í heild kemur fram í skýrslunni að lækkun tekjuskatts hefur oftast haft mest áhrif á lágtekjufólk. Hins vegar hafa skattalækkanir gagnast hátekjufólki meira að mati OECD í einstaka ríkjum, þar á meðal Íslandi.