Þörf er á grundvallarumbótum á fjármálakerfinu og regluverki þess til að leysa þau brýnu viðfangsefni sem upp hafa komið vegna lánsfjárkreppunnar á fjármálamörkuðum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem nefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um fjármálamarkaði sendi frá sér í dag.

Þar segir að einkageirinn ætti að hafa frumkvæði að því að ráðast í aðgerðir til að ná fram jafnvægi á fjármálamörkuðum, en hins vegar gæti verið þörf á inngripi ríkisvaldsins í þeim efnum.

Thomas Wiese, formaður nefndarinnar, segir að hrunið á bandaríska undirmálslánamarkaðnum hafi núna haft víðtæk eftirköst fyrir fjármálamarkaði og bankastofnanir víðsvegar um heim. Peningamálayfirvöld beggja vegna Atlantsála hafa eftir fremsta megni reynt að stemma stigu við þessari þróun - en oftast með litlum árangri.

Líkurnar á neikvæðum áhrifum þessa fyrir sjálft raunhagkerfi Bandaríkjanna hefur augljóslega aukist mikið á síðustu mánuðum. Og því fer fjarri að ljóst sé að önnur hagkerfi eigi eftir að sleppa við horn.

Á fundi nefndar OECD um fjármálamarkaði dagana 14 – 15. apríl var jafnframt lýst yfir stuðningi við þær tillögur sem Fjármálastöðugleikaráðið og sjö helstu iðnríki heims (G7) hafa mælt með til að fást við lánsfjárkreppuna.

En OECD vill einnig taka á þeim undirstöðuþáttum sem snerta regluverki fjármálakerfisins. Adrian Blundell-Wignall, sem á sæti í nefndinni, segir að það „sé ekki lengur hægt að halda því fram að við höfum besta mögulega fjármálakerfið sem völ er á".

Í tilkynningu nefndarinnar er greint frá því að hún hafi fundað með háttsettum aðilum innan fjármálageirans til að ræða umrótið á mörkuðum. Í þeim umræðum hafi komið fram að markaðsaðilar töldu mikla óvissu ríkja um horfur og stöðugleika á fjármálamörkuðum.

Þeir vænta þess að það muni líða 12-18 mánuðir þangað til hægt verði að tala um „eðlilegt ástand" á fjármálamörkuðum.

Fulltrúar einkageirans viðurkenndu að hið opinbera hefði hlutverki að gegna þegar kæmi að því að taka frumkvæðið að nýju og endurbættu regluverki fjármálakerfisins. Hins vegar þyrftu allar slíkar aðgerðir að vera gerðar í samvinnu við einkageirann, auk þess sem brýnt væri að þær yrðu ekki til þess að halda aftur af nýsköpun.