Aðgerðir til að koma ríkisfjármálunum á réttan kjöl eru sagðar lífsnauðsynlegar í Íslandskafla nýrrar hagspár Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Lögð er áhersla á að þær verði að fullu komnar til framkvæmda hið fyrsta til þess að rekstur ríkissjóðs verði sjálfbær á ný.

Um þetta er fjallað í Hagsjá, vefriti hagfræðideildar Landsbankans  en í skýrslunni er lagt til að áherslur peningastefnunnar verði áfram að halda genginu stöðugu en að gjaldeyrishöftum verði aflétt eins fljótt og mögulegt er til að ná að nýju tengslum við erlenda fjármagnsmarkaði, fyrirtækjum til hagsbóta.

Meðal niðurstaða hagspár fyrir Ísland er að landsframleiðsla mun byrja að vaxa að nýju árið 2011 um 2,6% eftir að hafa dregist saman um 7% á þessu ári og um 2,1% á því næsta. Þá mun atvinnuleysið haldast í um 7% í ár og á næsta ári en lækka niður í 6,4% árið 2011.

Þá kemur fram að bætt fjármálaleg skilyrði auk fjárfestingar í orkufrekum iðnaði muni verða til þess að hagkerfið taki við sér árið 2011. Aðgerðir ríkisins munu jafnframt draga úr ójafnvægi í hagkerfinu að mati stofnunarinnar og verðbólgan mun standa í 2,5% árið 2011. Viðskiptajöfnuðurinn, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, verður neikvæður um 1,5% á því ári samkvæmt spánni.

Sjá nánar í Hagsjá.