evrur
evrur
© None (None)
Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um þróun efnahagsmála á Íslandi segir að Ísland eigi til lengri tíma að líta til upptöku evru. Bent er á að Ísland virðist hafa minnstu sjálfstæðu, fljótandi mynt í heimi. Aðrar þjóðir sem eru svipaðar að stærð og Ísland hafa annað hvort ekki sjálfstæða mynt, líkt og Eistland, Lúxemborg og Malta, eða binda gjaldmiðil sinn við annan stærri, líkt og Lettland, Litháen, Bahamas og Holland gera.

Í skýrslunni segir að ef Ísland gerist aðili að evrusvæðinu þá dragi það úr óstöðugleika í vöruviðskiptum og draga þannig úr óstöðugleika verðbólgunnar. Verðbólguálag myndi lækka og einnig áhættuálag gagnvart evru, sem myndi leiða til lækkunar raunvaxta hérlendis.

Skýrsluhöfundar segja að kostnaður Íslands við að tapa sveigjanleika, sem næst með sjálfstæðri mynt, yrði takmarkaður þar sem vinnumarkaður hér á landi sé afar sveigjanlegur. Þeir benda þó á að aðlögun hagkerfisins í gegnum vinnumarkaðinn sé hægari og mögulega dýrari en aðlögun með gengisbreytingum.

Þá telur OECD að það verði áskorun (e. challenging) fyrir Ísland að uppfylla sum Maastricht skilyrðin. Engu að síður eigi að hafa markmið um samdrátt opinberra skulda og verðbólgu, jafnvel þótt Ísland ákveði að ganga ekki í Evrópusambandið.