Landsframleiðsla OECD ríkjanna dróst saman um 2,1% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og hefur ekki lækkað jafn mikið á einum ársfjórðungi í tæp 50 ár eða frá 1960.

Þá ber að geta þessa að landsframleiðsla OECD ríkjanna dróst saman um 2% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Landsframleiðsla í Bandaríkjunum dróst saman um 1,6% á fyrsta ársfjórðungi, líkt og á fjórða ársfjórðungi 2008. Í Japan dróst landsframleiðslan saman um 4% á sama tíma en hafði dregist saman um 3,8% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Á evrusvæðinu dróst landsframleiðslan saman um 2,5% en hafði dregist saman um 1,6% á ársfjórðungnum þar á undan.

Landsframleiðsla OECD ríkjanna hefur þannig dregist saman um 4,2% á einu ári en samkvæmt upplýsingum frá OECD hafa evruríkin mest áhrif á heildarsamdrátt landsframleiðslu OECD ríkjanna eða 1,3%. Þá kemur Japan með 1% og Bandaríkin með 0,9%.