OECD ríkin hafa gagnrýnt ríkisstjórn Rússlands harðlega fyrir aukin umsvif inn á mikilvægar hliðar viðskiptalífsins og einnig fyrir stórauknar yfirtökur og kaup ríkisrekna orkufyrirtækisins Gazprom.

Í skýrslunni segir að aukin umsvif ríkisstjórnarinnar í viðskiptalífinu valdi áhyggjum og hafi slæm áhrif fyrir vöxt þjóðarinnar. Í stað þess að einbeita sér að efnahagslegum umbótum hafi ríkisstjórnin fremur kosið að auka umsvif sín í flugiðnaði, fjölmiðlum, fjármálum og orkuiðnaði. Aukin umsvif ríkisrekinna fyrirtækja verði til þess að fjárfestar reyni að færa hagnað úr landi, framleiðsla verði minni og að hægist á hagvexti.

Sérstaklega er minnst á að virðist óseðjandi þorsta Gazprom í yfirtökur og eignakaup, oftar en ekki á kostnað aðalstarfsemi þess. Gazprom hefur hlotið mikla gangrýni á alþjóðavettvangi að undanförnu, sem og innanlands. Í stað þess að fjárfesta í gasframleiðslu hefur fyrirtækið verið að auka umsvif sín í olíuframleiðslu, rafmagnsframleiðslu, tækjabúnaði til orkuframleiðslu og í fjölmiðlum. Í síðustu viku tilkynnti Gazprom kaup á stærsta dagblaði Rússlands, Komsomolskaya Pravda. Fyrirtækið á einnig flugfélag, banka, þrjár sjónvarpsstöðvar, nokkur dagblöð og útvarpsstöðvar, kvikmyndahús og hótel.