Efnahags og framfarastofnun Evrópu (OECD) segir að ef þjóðir heims nái samkomulagi um reglur sem hamli stórfyrirtækjum að flytja hagnað í svokölluð skattaskjól geti ríkari þjóðir heims safnað andvirði um 100 milljörðum Bandaríkjadala í viðbótarskatttekjur.

Frumdrög nýju reglnanna eru þegar tilbúnar og vonast OECD til að samkomulag á grunni þeirra náist á næsta ári milli 135 ríkja heims. Samkomulagið gæti gert ríkisstjórnum landanna kleift að safna um 4% hærri skatttekjum af fyrirtækjum með því að tryggja að bandarísk og evrópsk fyrirtæki geti síður nýtt sér hagræði skattalegrar samkeppni milli landa.

Hvort samkomulag náist á grunni rammasamkomulagsins veltur þó til að mynda á niðurstöðum bandarísku kosninganna í byrjun nóvember, en stjórnvöld þar í landi hafa verið ein helsta hindrunin fyrir því að samkomulag náist.

„Við erum komin með byggingarefnið tilbúið fyrir þann tímapunkt að stjórnmálin breytist,“ hefur FT eftir Pascal Saint-Amans, yfirmann skattamála hjá OECD.

Tæknileg úrvinnsla rammasamkomulagsins hefur verið í vinnslu í meira en ár hjá OECD, en ef samkomulag næst ekki er sagt líklegt að frekari tollastríð geti átt sér stað sem geti kostað 1% af þjóðartekjum heims.

Annars vegar skattar lagðir á í upprunalandi tekna

Samkomulagið gerir ráð fyrir umbyltingu á fyrirkomulagi skattheimtu fyrirtækja, þannig að annars vegar verði skattarnir lagðir á, á þeim stöðum þar sem tekjurnar verða til, jafnvel þó selt sé í netverslun yfir landamæri.

Þó sú breyting verði til að byrja með smá í sniðum og eigi ekki að auka tekjur stjórnvalda mikið til að byrja með sé um grundvallarbreytingu á uppbyggingu skattkerfa sem færði skattgreiðslur stórfyrirtækja eins og Google, Amazon og Facebook í auknum mæli til Evrópu og þróunarríkja. Hins vegar myndu fyrirtæki eins og LVMH og Mercedes-Benz þurfa að borga meira í Bandaríkjunum en nú er.

Hins vegar alþjóðleg lágmarksskattheimta

Seinni stoð tillagnanna myndi setja lágmarksskattgreiðslur á alþjóðafyrirtæki, sama hvar þær væru með höfuðstöðvar sínar. Þannig að ef ríki hefði höfuðstöðvar í ríki með meira skattalegu hagræði, svokölluð skattaskjól, en önnur, þá hefðu önnur ríki rétt á að innheimta skatta af því upp að alþjóðlega lágmarkinu.

Í vikunni munu öll G20 ríkin, það er 20 stærstu efnahagshagkerfi heims, fjalla um rammasamkomulagið en ekki er búist við að niðurstaða náist um það hvort þau séu tilbúin að samþykkja það.

Ef ekki samkomulag þá einhliða stafrænir skattar

Þrýstihópar hafa kallað á að þjóðir heims haldi áfram að vinna einhliða að stafrænum sköttum til að auka aftur þrýsting á þær þjóðir heims og fjölþjóðafyrirtæki sem grætt hafa á því að selja vörur þvert á landamæri yfir netið, um að samþykkja rammasamkomulagið.

Slíkar hugmyndir hafa valdið reiði stjórnmálamanna í Bandaríkjunum þar sem hægt er að sjá að slík skattheimta muni beinast fyrst og fremst að bandarískum fyrirtækjum.

Bandarísk stjórnvöld eru sögð þurfa að samþykkja fyrstu stoðina, innheimtu eftir upprunalandi teknanna, sem bresk og frönsk stjórnvöld eru sögð leggja áherslu á. Aðrar evrópuþjóðir eru þó sagðar telja mögulegt að byggja samkomulag einungis á seinni stoðinni, alþjóðlegri lágmarksskattheimtu.