Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) segir neikvæð áhrif skuldakreppunnar á evrusvæðinu hafa haft neikvæð áhrif á heimshagkerfið og hefur stofnunin af þeim sökum lækkað hagspá sína fyrir sjö helstu iðnríki heims. Stofnunin spáir því að hagvöxtur ríkjanna verði að meðaltali 1,4% á árinu.

Talsverður munur er á löndunum sjö í spá OECD. Stofnunin er fremur svartsýn um horfur evruríkjanna og spáir m.a. því að hagkerfi Ítalíu dragist saman um 2,4% á árinu í stað 1,7% samdráttar eins og fyrri spá hljóðaði upp á. Þá er gert ráð fyrir 0,7% samdrætti í Bretlandi í stað 0,5% hagvaxtar. Spá fyrir önnur lönd eru á svipuðu róli. Horfur eru bestar í Bandaríkjunum að mati OECD sem reiknar með því að hagvöxtur verði 2,3% á árinu. Fyrri spá sem gefin var út í maí hljóðaði upp á 2,4% hagvöxt.

OECD hvetur evrópska seðlabankann til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum kreppunnar, svo sem með því að halda stýrivöxtum lágum og kaupa ríkisskuldabréf skuldsettra evruríkja.