Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) spáir 2,5% hagvexti hér á landi á næsta ári, minna atvinnuleysi og gerir ráð fyrir að áfram muni draga úr verðbólgu þótt hún verði áfram yfir verðbólgumarkmiðum. Hagvaxtarspáin er lakari en bæði Hagstofan og Seðlabankinn hafa gefið út. Hagstofan gerir í hagspá sinni ráð fyrir 2,7% hagvexti á þessu ári en Seðlabankinn spáir 3% hagvexti. Spá OECD er í takt við 2,5% meðalhagvöxt síðastliðinna þrjátíu ára.

Í spá OECD er m.a. gert ráð fyrir því að atvinnuleysi verði á næsta ári á svipuðu róli og nú eða í kringum 5%. Það mældist 4,9% í apríl. Þá gerir OECD ráð fyrir því að fjárfestingar aukist á næsta ári, sérstaklega í orkugeiranum. OECD setur reyndar þann fyrirvara við hagspá sína að helstu óvissuþættirnir geti falist í því að fjárfestingar í stóriðju og orkugeiranum gangi ekki eftir auk þess sem ytri aðstæður skipti máli, þ.e. að helstu viðskiptalönd Íslands verði ekki fyrir skakkaföllum en það getur haft neikvæð áhrif hér.

Hagspá OECD