Hagvöxtur á Íslandi mun dragast saman á þessu ári og verða 0,4% á þessu ári og neikvæður um 0,4% á næsta ári. Þá mun hægja á bæði neyslu og framkvæmdum nokkuð hratt næstu misseri.

Þetta kemur fram í nýrri hagspá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) sem kom út í morgun en Dow Jones fréttaveitan greinir frá.

Þá gerir stofnunin ráð fyrir því að á sama tíma muni atvinnuleysi aukast nokkuð hratt og verði tæplega 6% á næsta ári.

Skiptasamningar jákvæðir en þörf á frekar aðgerðum

Nýlegir skiptasamningar Seðlabankans við norræna seðlabanka er meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni. OECD telur þá jákvæða og til þess fallna að styrkja íslenskt efnahagslíf.

Hins vegar hvetur OECD íslensk yfirvöld til að tryggja betur traust á litlu efnahagskerfi landsins með því að styrkja gjaldeyrisforðann enn frekar.

„Í ljósi óstöðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum væri tilvalið fyrir [íslensk] yfirvöld að gera fleiri skiptasamninga,“ segir OECD.

Í skýrslunni er hvatt til þess að peningamálastefna Seðlabankans verði aðhaldssöm á næstu misserum til að tryggja að gengisfall krónunnar auki ekki frekar á verðbólguhorfur.

Þá hækkar OECD verðbólguspá sína fyrir Ísland og spáir 9,8% verðbólgu á þessu ári en hafði í febrúar s.l. spáð 4,4% verðbólgu. Þá gerir stofnunin ráð fyrir 6% verðbólgu árið 2009 í stað 2,8% eins og áður hafði verið gert ráð fyrir.