Það er óeðlilegt að halda innlendum aðilum í spennitreyju í mörg ár, á meðan verið er að greiða erlendum aðilum leið til að losna við krónueign sína. Þetta sagði Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands í dag. Sérfræðingahópur hefur á síðustu þremur mánuðum unnið að skýrslu um hvernig hægt er að afnema gjaldeyrishöftin. Í erindi sínu svaraði Yngvi Örn fjórum spurningum um afnám haftanna. Hópurinn hafnaði þeirri hugmynd að afnema höftin á einu bretti.

Yngvi Örn sagði það einnig óráðlegt að nota gjaldeyrisforða Seðlabankans til að mæta þeim uppsafnaða þrýstingi sem er frá aflandskrónueigendum. Það sé óráðlegt sérstaklega vegna þess að mikil óvissa ríkir um aðgang ríkisins að erlendum mörkuðum á næstu árum.

Þau skref sem Seðlabankinn hefur farið hingað til, með útboði gjaldeyris, eru ólíkleg til þess að bera árangur á ásættanlegum tíma, sagði Yngvi. Útlit sé fyrir að vandinn, það er um 300 til 400 milljarða krónueign erlendra aðila, verði svipaður að ári liðnu.

Þá spurði Yngvi hvort eðlilegt sé að gefa eigendum aflandskróna forgang við afnám hafta. Hann sagði mikilvægara að gefa innlendum aðilum forgang. „Við eigum að gefa okkur forgang,“ sagði hann og bætti við að óeðlilegt sé að halda íslenskum heimilum og fyrirtækjum í spennitreyju á meðan leyst er úr stöðu erlendra aðila.

Megintillaga sérfræðingahópsins er að bjóða erlendum krónueigendum að kaupa skuldabréf útgefin af íslenska ríkinu í erlendri mynt og létta þannig á þrýstingi. Ýmis álitamál varðandi núverandi leið seðlabankans og leiðina sem var kynnt í dag voru rædd á fundinum. Meðal annars það að ríkissjóður er í dag að stórum hluta fjármagnaður af erlendum krónueigendum. Þess vegna fylgi áhætta því að aflétta höftunum. Hópurinn leggur til að á næstu misserum verði settar varúðarreglur til þess að draga úr áhættunni.