Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að þegar kaup hins opinbera á flugmiðum verða boðun út á ný verði að taka fyrir það að ríkisstarfsmenn geti þegið vildarpunkta hjá flugfélögum. Í samtali við fréttavefinn Túrista.is segir Ólafur Stephensen að það sé í hæsta máta óeðlilegt að ríkisstarfsmenn þiggi vildarpunkta til persónulegra nota vegna flugferða sem skattgreiðendur hafa borgað fyrir. Um þetta gildi engar reglur, þrátt fyrir ábendingar m.a. Ríkisendurskoðunar.

Tilefni ummælanna er úrskurður kærunefndar útboðsmála sem birtur var í síðustu viku í máli WOW air gegn fjármálaráðuneytinu. Lagði nefndin það fyrir fjármálaráðuneytið að farmiðakaup ríkisins til og frá Íslandi verði boðin út. Samkvæmt upplýsingum Túrista frá Ríkiskaupum þá er gagnaöflun hafin fyrir þess háttar útboð.

Fyrir rúmum fjórum árum bauð ríkið síðast út kaup sín á farmiðum og þá bárust tilboð frá Icelandair og Iceland Express og var þeim báðum tekið. Forsvarsmenn Iceland Express kærðu þá niðurstöðu og sögðust lítil viðskipti hafa fengið frá hinu opinbera þrátt fyrir samninginn. Iceland Express hætti starfsemi haustið 2012.