*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 25. október 2014 10:32

Óeðlilegt ástand

Tillaga um að fella undanþágurnar á brott hefur verið lögð fram en Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og VG neituðu að taka þátt í henni.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Þingmenn Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hafa lagt fram á Alþingi breytingartillögu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Árið 2004 var lögunum breytt og afurðastöðvar í mjólkuriðnaði  undanþegnar samkeppnislögum. Frá þeim tíma hafa þær því til dæmis haft heimild til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða.

„Með frumvarpi þessu er lagt til að undanþágur frá samkeppnislögum er varða samráð, samruna og verðtilfærslu í mjólkuriðnaði verði felldar úr lögum,“ segir í greinargerð breytingartillögunnar, sem nú er lögð fyrir Alþingi í annað sinn. Breytingartillagan var síðast lögð fram fyrir þremur árum og þá felld með 30 atkvæðum gegn 19. Tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði.

Fyrsti flutningsmaður er Helgi Hjörvar, formaður þingflokks Samfylkingarinnar.

„Fyrir tíu árum síðan þá veitti þáverandi ríkisstjórn mjólkuriðnaðinum undanþágu frá samkeppnislögum,“ segir Helgi og vísar til lagabreytingar í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. „Við teljum að þetta sé óeðlilegt ástand og vorum andvíg þessari breytingu á sínum tíma. Við reyndum að fá þessu breytt þegar við vorum í ríkisstjórn 2011 og erum nú enn að freista þess að fá þessu breytt. Við viljum að almennur samkeppnisréttur gildi um þennan neytendavörumarkað eins og annan.“

Spurður hvort hann eigi von á að breytingartillagan verði samþykkt nú svarar Helgi: „Því miður fékkst enginn þingmanna Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknarflokks til að vera með í því að flytja málið. Ég bauð þeim það öllum og var að vona að þessar nýjustu afhjúpanir í mjólkuriðnaðinum myndu verða til þess að menn sem hlynntir væru frjálsri samkeppni kæmu með í þennan leiðangur. Því miður varð það ekki raunin og það gerir mann ekkert bjartsýnan."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.