Staðan í kjaraviðræðum nú er að mörgu leyti flóknari en verið hefur um árabil. Í einföldu máli má segja að allt frá þjóðarsáttarsamningunum hafi línan verið lögð með einhverjum hætti, hvort sem það hefur verið með beinni aðkomu ASÍ, eða vegna þess að stærri stéttarfélög hafa fylgt stærri félögum eins og VR og Eflingu og samið á sömu nótum og þau. Munurinn á kröfugerðum stéttarfélaganna er núna mun meiri en áður.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins hafa orð á því að meiri tortryggni gæti innan verkalýðshreyfingarinnar gagnvart öðrum verkalýðsfélögum. Þannig séu verkalýðsfélög á almenna markaðnum tortryggin í garð stéttarfélaga opinberra starfsmanna, sem þau telja að hafi farið fram úr sér í síðustu samningum. En einnig er tortryggni á milli einstakra aðildarfélaga og -samtaka innan ASÍ.

Þetta er að hluta til sagt skýra þá flóknu stöðu sem uppi er í kjaraviðræðunum þar sem mun meiri munur er á kröfugerðum einstakra félaga og samtaka. Eins óttast margir að félögin verði treg til að semja á undan öðrum af ótta við að sá sem fyrstur semji fái verri niðurstöðu en þeir sem bíða.

Einn viðmælandi hefur orð á því að í raun sé erfitt að sjá lausn í málinu nema með því að fá stærstu aðilana alla að sama borði og að gera við þá heildstæða samninga sem séu svipaðir yfir línuna. Ella megi búast við því að næsta kjarasamningalota verði jafnvel enn erfiðari. Almennu stéttarfélögin muni hins vegar ekki taka slíkt í mál nema félög opinberra starfsmanna komi einnig að samningaborðinu, en kröfur þeirra hafa alls ekki verið minni en félaga á almennum markaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .