Breska blaðið Financial Times fullyrðir að ósætti ríki meðal forráðamanna fjárfestingarbanka á Wall Street um hversu lengi aðgengi þeirra að endurhverfum verðbréfaviðskiptum við bandaríska seðlabankann eigi að vara.

Aðþrengdir fjárfestingarbankar á borð við Lehman Brothers vilja ólmir halda aðgenginu sem lengst, þótt það kunni að leiða til íþyngjandi reglugerða, en á sama tíma telja forráðamenn Goldman Sachs, sem hefur að mestu sloppið við vandræðaganginn vegna hrunsins á markaðnum með undirmálslán, slíkt ótækt. Financial Times segir að afstaða forráðamanna Morgan Stanley sé mitt á milli – þeir vilji bíða og sjá hvaða skilyrði bandaríski seðlabankinn setur fyrir áframhaldandi aðgengi.

Sem kunnugt er greip seðlabankinn til þeirra aðgerða að veita fjárfestingarbönkum aðgengi að skammtímafjármögnun gegn veði í fjárfestingarhæfum skuldabréfum, þar með töldum fasteignatryggðum skuldabréfavafningum, í kjölfar þess að Bear Stearns hrundi í mars.

Var gripið til aðgerðanna til þess að koma í veg fyrir að aðrir fjárfestingarbankar hlytu sömu örlög og Bear Stearns en hrun hans var meðal annars þannig tilkomið að aðgengi bankans að skammtímafé gufaði upp.

Þrátt fyrir að aðgerðir seðlabankans hafi verið umdeildar – bent var á að bankinn væri að skera fjárfesta og áhættufíkla úr snörunni – eyddu þær að mestu ótta um að fjárfestingarbankar gætu ekki aflað sér skammtímafjár enda var aðgengi þeirra að ódýru fé frá seðlabankanum tryggt um tíma.