„Á tímum mikils samdráttar, eins og var á árinu 2009, hafa fjölmörg fyrirtæki komist í þrot. Í eðlilegu markaðsumhverfi leggst af starfsemi slíkra fyrirtækja eða hún dregst verulega saman. Við þær aðstæður sem hér eru hafa lögmál markaðarins um samdrátt á markaði í framboði á þjónustu hins vegar ekki fengið að ganga eftir vegna inngripa ríkisbanka, sem hafa innleyst til sín gjaldþrota fyrirtæki í mörgum atvinnugreinum, meðal annars nokkra keppinauta Nýherjasamstæðunnar. Á sviði upplýsingatækni hafa endurreist fyrirtæki þannig fengið að halda uppi harðri samkeppni á markaðnum í skjóli fjármagns banka," segja Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður Nýherja, og Þórður Sverrisson, forstjóri, í ávarpi í nýrri ársskýrslu Nýherja.

Þeir segja að hremmingar sem hafa gengið yfir í íslensku efnahagslífi hafi skapað sérstæðar rekstraraðstæður fyrir fyrirtæki og er því mikilvægara en áður að fyrirtæki geti treyst því að eðlilegum leikreglum sé fylgt á markaði.

Farið á svig við leikreglur

„Þessar óeðlilegu ráðstafanir bankanna hafa ekki aðeins valdið starfsmönnum atvinnumissi, heldur einnig því að félagið hefur skilað mun lakari afkomu en ella hefði verið. Minni hagnaður hefur síðan bein áhrif á verðmæti félagsins á hlutabréfamarkaði og má leiða rök að því að með því að fara á svig við leikreglur markaðarins fari fram upptaka á eign hluthafa í félaginu, vegna óeðlilegrar framgöngu ríkisbanka," segja Benedikt og Þórður í ávarpi sínu.