Margur maðurinn hefur keypt undirföt frá verslunarkeðjunni Victoria’s Secret handa konunni í lífi sínu og hefur slagorð fyrirtækisins í ögrandi auglýsingum með fáklæddum og engilfögrum þokkadísum lengi verið „What is sexy?” eða „Hvað er kynþokkafullt?”

Nú mun verða breyting á að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Sharen Jester Turney, sem greinir frá því í dag í viðtali við Wall Street Journal, að vörumerki þyki orðið „of kynþokkafullt” eða réttara sagt kynþokkinn sé af „rangri tegund”.

Undirfataiðnaðurinn í Bandaríkjunum veltir um 10 milljörðum dollara og er Limited Brands, móðurfyrirtæki Victoria’s Secret, langstærst á þeim markaði, með um helming af veltunni eða um 5 milljarða dollara.

„Við höfum stórlega vikið frá arfleifð okkar,” segir Turney og að héðan í frá verði lögð áhersla á sérstaklega kvenleg undirföt til að mæta þörfum og væntingum viðskiptavina.

Sala í búðum keðjunnar, sem eru yfir þúsund talsins, sem opnaðar voru í fyrra hefur þó minnkað um 8% og talin er þörf á naflaskoðun í markaðssetningu nærfata. Á varan að vera siðfágaðri og úr vandaðri efnum en verið hefur.

Fyrir gálulegar táningsstúlkur?

Ein af ástæðunum fyrir hliðarsporum verslunarinnar út í ofur-kynþokkafullar vörur er að sögn Turney velgengni svokallaðarar Pink-vörulínu, sem seldist fyrir 900 milljónir dollara í fyrra, en hún var einkum ætluð háskólastúdínum.

Vegna mikillar sölu tóku fleiri vörur að miðaðst við vaxtarlag og þarfir yngri kvenna, en eldri konur gleymdust og sneru þær því í auknum mæli til annarra söluaðila. Hafa sumir tryggir og íhaldssamir viðskiptavinir kvartað yfir því að vörur keðjunnar séu fremur ætlaðar táningsstúlkum en þroskuðum konum og fundist sumt jafnvel gálulegt í meira lagi. Þessu ætlar Turney að breyta.

Tæpast verður þó öklasítt föðurlandið úr grófri prjónaull til sölu í Victoria’s Secret í bráð.