Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, segir mikilvægt að íslenska ríkið hafi keypt viðskiptabankana þrjá á réttu verði.

Hafi kaupverðið verið of lágt, sé möguleiki á að kröfuhafar fari fram á að kaupunum verði rift, því þá teljist kaupin að hluta til sem gjöf.

Hann bendir á að kröfuhafar geti ekki sótt eignir til nýrra eignarhaldsfélaga bankanna, sem reka innlenda starfsemi þeirra, því það sé nýtt fyrirtæki. Að því hafi kröfuhafar ekki aðgang.

Stefán Már segir því að eini möguleikinn sem eftir standi sé að athuga hvort hægt sé að rifta kaupunum.

Prófessorinn ræddi nýju neyðarlögin um viðskiptabankana á hádegisfundi á vegum Orators, félags laganema Háskóla Íslands. Þar var ágætis mæting og hvergi autt sæti að finna í salnum.

Fyrir skömmu voru viðskiptabankarnir Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn þjóðnýttir og í kjölfarið voru stofnuð þrjú ný eignarhaldsfélög fyrir bankana sem halda utan um það sem snýr í grunninn að innlendu starfseminni. Áður voru þetta ein stærstu fyrirtæki landsins í örum vexti.