(SKIP.IS) Framboð á síld á uppboðsmarkaði Norges Sildesalgslag er of mikið að mati sölustjóra samtakanna. Afleiðingin er sú að síldin fer í stórauknum mæli til mjöl- og lýsisframleiðslu en Norðmenn hafa verið þekktir fyrir að vinna mest af sínum síldarafla til manneldis fram að þessu.

Til marks um framboðið af síld má nefna að á markaðnum sl. sunnudag voru 1800 tonn til sölu og 2000 tonn á mánudag. Norskar fiskvinnslur kaupa ekki síld til flökunar þessa dagana. Ýmist er það vegna þess að síldin er ekki orðin nægilega feit eða þá vegna þess að ,,jómfrúarsíldin" sem fer í svokallaða matjesvinnslu, aðallega fyrir Hollandsmarkað, er of dýr og norsku vinnslurnar geta ekki keppt við þær dönsku. Matjessíldin er af stærðinni 135-140 grömm en síld sem fer í þessa vinnslu hefur ekki þróað hrogn eða svil og er hún aðallega veidd í Norðursjónum. Verðið fyrir þessa síld hefur verið hátt á markaði eða um 3,80 til 5,00 NOK/kg eða sem svarar til 46 til 60 ísl. kr/kg.

Nú í byrjun vikunnar voru norsk skip búin að veiða rúmlega 203 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld á árinu og um 12.400 tonn af norðursjávarsíld að því er fram kemur á vef sölusamtakanna.