William Buiter, fyrrum bankastjóri hjá Englandsbanki, kom miklum umræðum af stað á árlegu þingi Seðlabanka Bandaríkjanna þegar hann sagði of mikla áherslu lagða á hagsmuni fjármálaheimsins í stefnumótun. Bloomberg segir frá þessu í dag.

„Seðlabankinn hlustar á Wall Street og trúir öllu sem þaðan kemur,” sagði Buiter í ritgerð sem birt var á þinginu. „Þessi skerti skilningur á aðeins hluta raunveruleikans er truflandi og getur reynst hættulegur og óheilbrigður,” segir hann.

Frederic Mishkin, sem mun brátt hætta störfum hjá bandaríska seðlabankanum, segir skrif Buiter senda út slæm skilaboð. Mishkin var ósammála þeirri túlkun Buiter að lægri stýrivextir og aukin veðhæfni bréfa hefðu fyrst og fremst afleiðingar í formi hærra verðlags. Mishkin benti Buiter jafnframt á að lesa sér betur til í peningamálahagfræði.

Bandaríski seðlabankinn hefur legið undir ámæli víða fyrir að ætla að enda lánsfjárkreppuna með því að dæla fé inn á fjármálamarkaði. Buiter segir innspýtingu fjármagns frá seðlabankanum til fjármálafyrirtækja aðallega hafa þau áhrif að verðbólga aukist.

Jean-Claude Trichet kom bandaríska seðlabankanum til varnar og sagði aðgerðir hans hingað til eins og best hafi verið á kosið í þeim erfiðu aðstæðum sem eru nú uppi. „Eftir heilt ár óstöðugleika er leiðrétting markaða enn í fullum gangi,” sagði hann.