Viðskiptaráð Íslands telur að of mikil áhersla sé lögð á tekjuöflun í aðlögun ríkisfjármála. Tvær skýrslur hafa verið gefnar út af Viðskiptaráði á síðustu misserum þar sem bent er á aðrar tillögur um hvernig taka má á fjárlagahalla ríkissjóðs.

Við fjárlagagerð er meginreglan sú að horft er til fjárlaga síðasta árs og síðan er gerð tillaga um hækkun í samræmi við verðlagsbreytingar frá fyrra ári. Að mati Viðskiptaráðs benda ítrekaðar framúrkeyrslur tiltekinna ráðuneyta og stofnana til að þetta verklag endurspegli ekki heildarfjárþörf stofnana og ríkis. Fjárlög ættu frekar að byggja á upplýsingum um raunverulega fjárhagsstöðu eða fjárhagsþörf stofnanna og verkefna, en ekki fjárlögum síðasta árs að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Önnur tillaga Viðskiptaráðs er að stjórnvöld ættu að leggja í heildstæða úttekt á öllum liðum fjárlaga, þar sem raunveruleg fjárþörf ráðuneyta og stofnana yrði metin frá grunni. Við þá úttekt fæst ákveðinn núllpunktur sem hægt er að miða við í framtíðinni. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að einstakir liðir hækki óeðlilega mikið og draga úr sjálfvirku hækkunarferli sem er innbyggt í núverandi fyrirkomulagi.

Einnig er lagt til bindandi útgjaldaþak fyrir hvert ráðuneyti yfir heilt kjörtímabil og að gerðir verði árangurssamningar við einstök ráðuneyti og stofnanir.