Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, sagði í gær að það væri "of seint" að stöðva kjarnorkuáætlun Írana og varaði Bandaríkin og bandamenn þess um að þrýsta á enn frekari refsiaðgerðir á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Helsti samningamaður Írana í kjarnorkudeilunni við Vesturveldin, Ali Larijani, mun hitta utanríkisráðherra Þýskalands á meðan fundur leiðtoga átta helstu iðnríkja heimsins í Heiligendamm í Þýskalandi stendur yfir í þessari viku. Stutt er síðan Larijani lét hafa það eftir sér að hægt væri að leysa kjarnorkudeiluna á næstu vikum ef öryggisráðið léti af fyrirhuguðum áætlunum sínum um að krefjast frekari refsiaðgerða gegn Írönum.