"Of snemmt er að segja til um hvort að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans séu nú byrjaðar að hafa áhrif á þróun verðbólgu þar sem tilboð og útsölur hafa mest áhrif á mælinguna þennan mánuðinn" segir Rannveig Sigurðardóttir deildarstjóri greiningardeildar hagfræðisviðs Seðlabankans.

Þrátt fyrir að hækkun vísitölu neysluverðs nú hafi verið undir væntingum greiningaraðila var hún í takt við spá Seðlabankans fyrir annan fjórðung ársins segir Rannveig en Seðlabankinn spáir 11% verðbólgu við lok árs.

Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hækkaði vísitala neysluverðs um 0,46% frá síðasta mánuði og er nú 8,4% á ársgrundvelli. Hækkunin er undir væntingum greiningaraðila sem spáðu hækkun á bilinu 0,55- 0,7%.

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um 75 punkta þann 6. júlí síðastliðinn upp í 13% til að hemja verðbólguna en Seðlabankinn telur þó að minni hækkun vísitölu neysluverðs nú en búist var við sé fyrst og fremst vegna áhrifa útsölu og tilboða sem haldið hafa verðbólgunni í skefjum þennan mánuðinn.

Rannveig Sigurðardóttir segir að ekki sé hægt að draga neinar róttækar ályktanir af niðurstöðum mælinga Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs þennan mánuðinn þar sem að mörgu leyti er um sérstakan mánuð að ræða þar sem útsölur og tilboð hafa haldið aftur af hækkunum vísitölunnar.

Rannveig segir að þróun húsnæðisverðs og gengis munu líklegast hafa mest áhrif á verðbólguþróun næstu mánuði. "Markaðsverð húsnæðis hefur sveiflast nokkuð síðastliðna mánuði en hækkar um 1,1% milli mánaða. Það virðist því nokkuð seigt". Segir Rannveig

Greining Glitnis spáði að vísitalan myndi hækka um 0,7% frá fyrri mánuði en í Morgunkorni greiningardeildarinnar kemur fram að spáskekkjan skýrist af stórum hluta af meiri útsöluáhrifum en áður var gert ráð fyrir. Greining Gltinis telur að útsöluáhrif hafi verið sambærileg og í fyrra þrátt fyrir gengislækkun krónunnar en telja að gengislækkunin muni hafa meira að segja um þróun verðbólgu þegar útsölurnar ganga til baka.

Síðustu þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um 3,1%, sem jafngildir 13% verðbólgu á ársgrundvelli. Samkvæmt nýjustu verðbólguspá Seðlabankans sem kynnt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun er búist við að verðbólga verði 11% í lok árs. Greiningardeildir bankanna gera þó ráð fyrir minni verðbólgu en Greining Glitnis spáir til að mynda 9% verðbólgu við lok árs.