Flest bendir til þess að of sterk viðbrögð hafi verið á gjaldeyrismarkaði við áliti Fitch á lánshæfi ríkissjóðs sem birtist á þriðjudag, segir greiningardeild Íslandsbanka, og telur meiri líkur á gengishækkun krónunnar á næstu dögum en gengislækkun.

?Áhyggjur matsmanna Fitch af stöðugleika fjármálakerfisins hér á landi virðast að miklu leyti byggðar á upplýsingaskorti sem auðvelt er að bæta úr, auk þess sem staðfesting sú sem fyrirtækið birti í morgun á lánshæfi bankanna ætti að róa fjárfesta," segir greiningardeildin.

Áhyggjur Fitch af þensluhvetjandi aðgerðum stjórnvalda eru réttmætar og æskilegt að bregðast við, að mati greiningardeildar Íslandsbanka.

Miðað við ólíkar forsendur um jafnvægisgengi krónunnar og tímasetningu á slíku jafnvægi má með núvirðingu út frá vaxtamuninum við útlönd reikna það sem telja má raunhæft gengi krónunnar í dag, segir greiningardeildin.

Slíkir útreikningar gefa til kynna að viðbrögð gjaldeyrismarkaðar hafi verið of hörð og áfram sé ástæða til að reikna með sterkri krónu fyrst um sinn.

Veltumet var á gjaldeyrismarkaði bæði í gær og í fyrradag. Í gær nam veltan á gjaldeyrismarkaði 41,2 milljörðum króna og í fyrradag nam hún um 26 milljörðum króna.

Innlendir aðilar voru mest áberandi í gjaldeyriskaupunum sem urðu til þess að lækka gengi krónunnar.

Sennilega má rekja þennan ótrúlega hraða gengislækkunar síðustu tvo daga til einsleitra væntinga innlendra aðila þar sem flestir hér landi hafa talið gengi krónunnar orðið ansi hátt og gengislækkun aðeins tímaspursmál, segir greiningardeildin.

Reikna má þó með sveiflum næstu daga því mikið flökt á gjaldeyrismarkaði hefur marktæka sjálffylgni.

Gengisbreyting síðustu daga nemur mörgum staðalfrávikum og ljóst er að um sjaldséðan atburð er að ræða á gjaldeyrismarkaði. Við slíkar aðstæður er mjög algengt að verð komi að einhverju leyti til baka, segir greiningardeildin.

Mikið flökt á gjaldeyrismarkaði hefur þó marktæka sjálffylgni og því má áfram reikna með sveiflum næstu daga.