Langhæstu endurgreiðslur ríkisins til kvikmyndagerðar á síðasta ári voru vegna sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð 2, sem námu tæplega 335 milljónum króna. Stærsta erlenda verkefnið sem fékk endurgreiðslur í fyrra voru bandarísku þættirnir Star Trek Discovery, sem fengu 54 milljónir endurgreiddar. Til samanburðar var eitt erlent verkefni sem fékk hærri upphæð endurgreidda árið 2018 og fimm erlend verkefni árin 2017 og 2016. Þar af var stærsta verkefnið árið 2016 vegna kvikmyndarinnar Fast and the Furious 8, sem fékk ríflega hálfan milljarð króna endurgreiddan og nam framleiðslukostnaðurinn því um 2,5 milljörðum króna vegna kvikmyndarinnar hér á landi.

Leifur B. Dagfinnsson, framkvæmdastjóri Truenorth, kveðst nokkuð bjartsýnn fyrir árinu sem er nýgengið í garð en segir að það sé þó erfitt að spá fyrir um það hvernig rætist úr árinu, þar sem hlutirnir séu fljótir að breytast innan kvikmyndageirans.

„Við erum með nokkur erlend verkefni í kortunum en kostnaðarliðurinn er enn svolítið að flækjast fyrir okkur. Hvernig árið 2020 mun ganga hjá okkur er að miklu leyti háð því hvernig gengi krónunnar kemur til með að þróast."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .