Því fer fjarri að öll ljón séu úr vegi KSÍ með nýjum merkjum og búningum frá Puma því sambandið þarf enn að glíma við að leika heimaleiki sína á Laugardalsvelli. Grasið þar er vissulega fínt yfir sumarið en allt annað er barn síns tíma. Stefán Sveinn Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ, segir margt bagalegt við völlinn.

„Satt best að segja er bara mjög erfitt vinna með Laugardalsvöll. Þú getur gert allt rétt í undirbúningnum en stærsta áskorunin, og það eina sem skiptir máli að lokum, er að skapa rétt andrúmsloft á leikdegi, sem er bara því miður erfitt á þessum leikvangi,“ segir Stefán. Sem kunnugt er umlykur hlaupabraut völlinn, hann er ekki lokaður og því vindurinn oft háværasti stuðningsmaðurinn. En þar með er ekki öll sagan sögð.

„Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á salernisaðstöðuna hérna, sérstaklega í stúkunni austanmegin. VIP-stúkan er algjörlega sprungin og það væri auðveldlega hægt að skapa miklu meiri tekjur með betri aðstöðu. Aðstaðan til að selja mat og varning er engin og það sem okkur þykir verst er að aðstaðan fyrir hreyfihamlaða er algerlega til skammar,“ segir Stefán.

Allir sjá að ekki er hægt að plástra ástandið til lengdar og ef fram heldur sem horfir er þess ekki langt að bíða að landsliðin neyðist til að leika einhverja leiki í Færeyjum eða Danmörku. „Það er synd að ákvörðun um nýjan völl sé ekki komin lengra. Ímyndaðu þér hvað væri hægt að gera með lokaðan völl, þar sem hver stúka gæti verið nefnd eftir landvættunum, sem væri yfirbyggð gryfja. Andstæðingar okkar myndu hræðast enn meir að koma hingað,“ segir Stefán.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .