Að höfðu samráði við Veðurstofu Íslands, lokaði lögreglan á Vestfjörðum Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði fyrir allri umferð um hálf tólf í gærkvöld vegna snjóflóðahættu. Þetta var gert í framhaldi af rýmingu á reit 9 á Ísafirði, en Skutulfjarðarbraut fer um það svæði. Þetta kemur fram á vef almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra. Þar kemur enn fremur fram að endurskoða hafði átt lokunin í dag.

Magni Hreinn Jónsson, á snjóðflóðadeild Veðurstofunnar, sagði í hádegisfréttum RÚV að Skutulsfjarðarbraut væri nú opinn undir eftirliti. Vegurinn um Súðavíkurhlíð er þó enn lokaður vegna snjóflóðahættu.

"Það á að draga úr úrkomu og létta til hérna á Vestfjörðum í dag og við ætlum að nota þann glugga til að skoða aðstæður. En svo aftur á morgun er spáð vaxandi úrkomu og öðru norðanáhlaupi," sagði Magni Hreinn í samtali við RÚV.

Í morgun féllu snjóflóð í Ólafsfjarðarmúla og Ljósavatnsskarði. Í hádeginu höfðu vegirnir ekki verið opnaður.

Mikil ófærð var víða um land í gær og í morgun. Björgunarsveitarmenn voru við störf víða um land í nótt, mest við að hjálpa fólki sem hafði fest bíla sína í snjó.