Ofát skemmir heilann. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birtist í British Journal of Nutrition sem birtist í febrúar síðastliðnum og er umfjöllunarefni í tímaritinu Forbes . Nánar tiltekið skemmir ofát boðleiðir í undirstúkunni, eða hypothalamusnum, en það er sá hluti sem stýrir efnaskiptum líkamans.

„Of mikil kaloríuneysla úr fitu og sykrum skemmir taugar og dregur þannig úr getu líkamans til að hafa stjórn á efnaskiptum og þyngd,“ segir Louis Aronne, læknir við New York-Presbyterian spítalann. „Þessi skemmd verður til þess að boð berast ekki til heilans um það hve mikil fita er í líkamanum,“ bætir hún við.

Með öðrum orðum, geta menn ekki treyst skilaboðum sem heilinn sendir þér um matarlyst þína og hungur. „Þetta er eins og ef bensínmælirinn í bílnum myndi sýna í sífellu að tankurinn væri tómur, alveg óháð því hvort hann er fullur eða ekki,“ bætir Aronne við. „Þú stöðvar því bílinn í sífellu til að taka bensín og endar á því að fylla bensínbrúsa og geyma þá aftan í bíl hjá þér því þú ert svo sannfærður um að þú verðir bensínlaus á hverri stundu,“ segir Aronne.

Aronne segir að til þess að bregðast við þessu verði fólk að breyta mataræðinu og breyta því hratt. „Þetta snýst allt um lífefnafræði,“ segir hún. Sumar skemmdirnar sem verði á undirstúkunni geti verið varanlegar en engu að síður sé hægt að snúa ferlinu við með því að bregðast skjótt við og breyta mataræðinu. „Ef fitusnauðugara fæði er tekið inn, er líklegra að þú getir dregið úr skemmdum,“ segir hún.