Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag hefur Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs Sveitarfélaga, gefið kost á sér til setu í stjórn Glitnis HoldCo. Hann lagði meðal annars fram tillögu um að laun stjórnarmanna myndu lækka um 90% frá því sem þau eru núna. Núverandi stjórnarlaun eru 350.000 evrur, en þau myndu lækka í 35.000 evrur. Laun formanns stjórnar yrðu þá 70.000 evrur á ári, en þau myndu lækka úr 525.000 evrum.

Óttar segir í samtali við Viðskiptablaðið að honum hafi ofboðið þegar hann hafi séð stjórnarlaunin:

„Rótin af þessu er að mér ofbauð þau stjórnalaun sem samþykkt voru á stofnfundi félagsins í lok janúar. Mér finnst ekki í lagi að stjórnarlaun í setu félags sem verður til úr þrotabúi íslensks almenningshlutafélags borgi tífölld laun á við það gerist í venjulegum almenningshlutafélögum sem eru með skráð verðbréf í kauphöll. Mér finnst þetta alveg fráleitt og dónaskapur við okkar umhverfi að ákveða slíkt.“

Helstu eignir Glitnis HoldCo eru samkvæmt Óttari erlend eignarsöfn, s.s. skuldabréf og verðbréf. „Það er verið að greiða út stóran hluta þeirra núna. Ég veit ekki hvað verður eftir í eignarsafninu eftir þá greiðslu,“ segir Óttar.

Spurður hvort að stjórnarsetan feli í sér mikla vinnu segir Óttar:

„Ég get ekki ímyndað mér það, þetta er þrotabú. Það er verið að naga það síðasta af beinunum og ég get ekki ímyndað mér að það þurfi til mikla vinnu stjórnarmanna. Þetta félag hefur í gegnum tíðina greitt mikla fjármuni til að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf. Stjórnin á að móta stefnu og hafa eftirlit með stjórnendum og starsmönnum, hún er ekki í handavinnu við að innheimta kröfur.“

Óttar segir að þær fjárhæðir sem hann hafi lagt til, annars vegar 35 þúsund evrur fyrir stjórnarmenn og hins vegar 70 þúsund evrur fyrir stjórnarformann, séu í fullu samræmi við það sem best gerist í hlutafélögum sem eru með skráð verðbréf í Kauphöllinni.

„Það finnst mér ríflegt. Þetta er í samræmi við félög sem eru skráð í kauphöll á Íslandi. Þau félög eru í samkeppni og rekstri, með útistandandi hlutabréf og með allskonar flækjustig. Þetta getur ekki verið flóknara en það. Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé meiri vinna en að vera í stjórn Icelandair Group eða Símans.“

Hann segist ekki vita til þess að aðrir hafi þegar gefið kost á sér til setu í stjórninni. „Þetta framboð var bara sjálfsprottið vegna þess að mér ofbauð. Ég er hluthafi þarna og þetta verður ekki með mínu samþykki. Ég gat bara ekki setið aðgerðalaus þegar maður horfir upp á svona,“ segir Óttar.