Stefán Broddi Guðjónsson forstöðumaður greiningardeildar Arion banka segir þjóðarbúið á góðum stað og hægt sé að halda ágætum stöðugleika á krónunni meðan opinber fjármál og aðrir þættir séu í lagi.

Hins vegar gætum við misst tökin og með yfirskoti sé hætta á offjárfestingu, umframneyslu og eignabólu sem hefji á ný sömu hringrásina og því miður þekkist of vel hér á landi.

Áhyggjur af samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja

„„Sterkari króna hefur afar víðtæk áhrif hér á landi. Hún eykur kaupmátt Íslendinga, styrkir innflutning og hefur haldið verðbólgu í skefjum. Á hinn bóginn hefur hún veruleg neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja, hvort sem þau eru í sjávarútvegi, iðnaði eða ferðaþjónustu,“ segir Stefán Broddi í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er óhætt að segja að ef ekki hefði komið til ör vöxtur ferðaþjónustunnar væri krónan á öðrum stað í dag. Ferðaþjónustan hefur skapað vaxandi afgang af þjónustuviðskiptum sem hefur síðustu misserin reynst nægur til að vega upp vaxandi halla á vöruskiptum við útlönd.“

Þjóðarbúið skuldlaust

Stefán segir þó fleira koma til heldur en ferðaþjónustuna í því að krónan sé að styrkjast.

„Í kjölfar uppgjöra slitabúa föllnu bankanna og aflandskrónuútboða er nettó skuldastaða þjóðarbúsins við útlönd nánast á núlli. Viðskiptaafgangur og hagstæð skuldastaða er góður grunnur fyrir frekari hægfara styrkingu krónunnar og þar með aukinn kaupmátt,“ segir Stefán sem segir styrkinguna geta hafa verið mun hraðari.

„Reyndar er það svo að ef ekki hefðu komið til samfelld gjaldeyriskaup Seðlabankans síðustu misserin þá hugsa ég að krónan hefði styrkst mun hraðar. Ef aðeins væri tekið mið af nýjustu tölum um viðskiptaafgang og skuldastöðu þjóðarbúsins mætti segja að krónan gæti styrkst frekar.“

Fíll í herberginu

Stefán segir styrk krónunnar ráðast af inngripum Seðlabankans.

„Þá eru höft á fjármagnsútflæði eins og fíll í herberginu og í raun er verðmyndun krónunnar því ekki eðlileg fyrr en fjármagnshöftum verður lyft. Lengra fram á veginn ræðst hún af áframhaldandi vaxandi gjaldeyrissköpun í landinu,“ segir Stefán.

„Þá vaknar spurning, ekki aðeins hvað ferðaþjónustan þolir sterka krónu, heldur ekki síður hvað þola aðrar útflutningsgreinar sterka krónu? Í nýlegri ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar þá rifjum við upp kenninguna um „hollensku veikina“ en það vísar til þess þegar að hraður vöxtur einnar útflutningsgreinar getur haft neikvæð áhrif á aðrar útflutningsgreinar.“

Getum haldið ágætum stöðugleika

„Ég held reyndar að við séum á mjög góðum stað um þessar mundir; með stóran gjaldeyrisforða, utanríkisviðskipti í jafnvægi og skuldastöðu og opinber fjármál í lagi þá getum við haldið ágætum stöðugleika í krónunni,“ segir Stefán.

„Vaxandi útflutningur gefur síðan mögulega færi á frekari styrkingu gengisins, sem styður við litla verðbólgu og þar með lækkun vaxtastigs. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að hér þurfi að vera háir vextir ef annað er í jafnvægi.“

Íslenska leiðin hefur verið hringrás upp- og niðursveiflna

Stefán spyr hvort ástæða sé til að taka áhættuna á því að hér verði yfirskot sem fylgi bullandi niðursveifla áður en hringrás íslensku leiðarinnar hefjist á ný.

„Ef við hins vegar missum tökin og krónan yfirskýtur þá hefur íslensku leiðinni í fortíðinni því miður fylgt offjárfesting, neysla umfram efni, mikil skuldsetning og eignabóla,“ segir Stefán.

„Samhliða færi útflutningsfyrirtækjum að blæða og viðskiptaafgangur breytist í halla, sem aðeins verður lagfærður með falli krónunnar, sem aftur verður brugðist við með hækkun vaxta. Allt fer síðan í bullandi niðursveiflu þangað til ný hringrás hefst. Er nokkur ástæða til að taka sjensinn á því?“