Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ræðir um stöðu efnahagsmála í viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom út á dögunum. Ásdís segir í viðtalinu að áætlanir um í það minnsta 900 milljarða uppsafnaðan hallarekstur ríkissjóðs á næstu árum endurspegli þá alvarlegu stöðu sem við blasi.

„Þessar skuldir þarf á einhverjum tímapunkti að greiða til baka, bæði af núverandi skattgreiðendum og komandi kynslóðum. Skuldir hins opinbera eru að tvöfaldast vegna kórónukreppunnar. Þetta er gríðarlega mikil skuldasöfnun á skömmum tíma. Þá gera áætlanir ráð fyrir hallarekstri út árið 2025 - það er mikið áhyggjuefni ef ríkissjóður nær ekki jafnvægi á jafnlöngum tíma," segir Ásdís. Hún saknar þess úr umræðunni hvernig fólk sér fyrir sér að hægt verði að koma okkur út úr þessari stöðu.

„Á meðan virðist hins vegar vera nægt framboð af tillögum um hvernig ríkissjóður eigi að auka útgjöld enn frekar. Hugmyndir um að ríkissjóður eigi einnig að fjármagna hallarekstur sveitarfélaga fyrir tugi ef ekki hundruð milljarða króna eru mjög óábyrgar. Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga er mikið hér á landi, sveitarfélögin eru með sjálfstæða tekjustofna og framlög ríkissjóðs til þeirra því lágt. Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna hlýtur að gilda í niðursveiflu eins og í uppsveiflu. Þá virðist gleymast í þessari umræðu að ríkissjóður er nú þegar að styðja við sveitarfélögin með auknum útgjöldum vegna atvinnuleysis, tekjutengdra atvinnuleysisbóta og hlutabótaleiðarinnar sem helsta tekjuöflun sveitarfélaga, útsvarið, byggir á."

Agi í ríkisfjármálum nauðsynlegur

Ásdís bendir á að rekstrarhalli og skuldasöfnun hins opinbera einskorðist vissulega ekki einungis við Ísland, svipuð þróun sé að eiga sér stað í öðrum iðnríkjum, en þó stefnir í meiri hallarekstur hér en t.a.m. á Norðurlöndunum á næstu árum. Ríki eins og Ísland, með örmynt og sveiflukennda hagsögu, þurfi hins vegar að sætta sig við að vaxtaálagið á gjaldmiðilinn sé almennt hærra og næmara fyrir aukinni skuldsetningu.

„Því er nauðsynlegt að beita meiri aga í ríkisfjármálum hér á landi til að viðhalda trausti lánveitenda. Það ber að hafa í huga að ef ekki hefði verið fyrir einskiptisliði tengda uppgjörum föllnu bankanna væri skuldastaðan hér önnur og talsvert verri en raunin er. Viðlíkar tilfærslur á efnahagsreikningi munu að öllum líkindum ekki raungerast aftur og mun því þurfa að treysta alfarið á hagvöxt og ábyrgð í ríkisrekstri til að halda áfram á fyrri vegferð skuldalækkunar," útskýrir Ásdís.

„Áhersla á niðurgreiðslu skulda á síðustu árum veitir stjórnvöldum nú svigrúm til aukinnar lántöku vegna kórónukreppunnar. Sjálfbærni skulda ræðst af samspili hagvaxtar, vaxta og afkomu. Ekki er skynsamlegt að láta reyna á þessi þolmörk að neinu leyti enda hefði það miklar og langvarandi afleiðingar í för með sér fyrir hagkerfið í heild sinni. Það eru ekki nema örfá ár síðan árlegur vaxtakostnaður ríkissjóðs var í kringum 90 milljarða króna sem dæmi. Á þeim tíma vorum við föst í vítahring hárrar skuldsetningar og íþyngjandi vaxtakostnaðar, sem er varla eftirsóknarverð staða. Við viljum ekki fara aftur þangað. Svo er alltaf erfitt að spá fyrir um efnahagsáföll enda gera flestar hagspár ráð fyrir hægfara aðlögun í átt að fyrra ástandi. Í því samhengi má rifja upp hagspár í aðdraganda fjármálakreppunnar fyrir rétt rúmum áratug sem og nú í aðdraganda kórónukreppunnar."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .