Alþjóðlega orkumálastofnunin (International Energy Agency eða IEA) hefur breytt spá sinni um framleiðslu og eftirspurn eftir olíu á fyrri helming þessa árs.

Ný spá gerir ráð fyrir aukinni offramleiðslu á olíu sem nemur 1,75 milljónum tunna dag, en fyrri spá sem gerð var í síðsta mánuði gerði ráð fyrir offramleiðslu sem nam 1,5 milljón tunna á dag. Ný spá gerir einnig ráð fyrir því að offramleiðslan gæti verið meiri ef OPEC ríkin auka við framleiðsluna.

Aukið framboð

Íran hefur aukið við framleiðsluna sem nemur 80 þúsund tunnum á dag eftir að efnahagsþvingunum á landinu var létt í síðsta mánuði, en auk Íran hefur Sádí-Arabía einnig aukið við framleiðsluna sem nemur 70 þúsund tunnum á dag. OPEC ríkin 13 juku alls við framleiðsluna í síðasta mánuði sem nemur 280 þúsund tunnum á dag, en heildarframleiðsla ríkjanna er um 32,63 milljónir tunna á dag.

Minnkandi eftirspurn

IEA gerir einnig ráð fyrir að eftirspurn eftir olíu muni minnka sem nemur 100 þúsund tunnum á dag. Heildareftirspurn er þá um 95,6 milljón tunnur á dag.

Olíuverð í janúar hafði ekki verið lægra í um 12 ár en hefur hækkað örlítið undanfarið vegna orðróma um að OPEC ríkin gæti náð samkomulagi við ríki utan OPEC um að draga úr framleiðslu á olíu. Að mati IEA þá eru líkurnar á samræmdum aðgerðum afar lágar. Heildarbirgðastaða á olíu nemur um það bil þremur milljörðum tunna, eða um 350 milljón tunna yfir meðaltali.