„Hafið eins hátt og þið getið,“ sagði Jean-Luc Mélenchon, leiðtogi róttækra vinstri manna á fjölmennri samkomu í haust. Mótmælendur, áttu að valda landlægum usla, með því að berja í potta og pönnur. Mótmælendur myndu segja Emmanuel Macron að efnahagsumbætur hans „eyðilegðu líf þeirra og kæmu í veg fyrir drauma, þannig hann fengi ekki svefnfrið,“ er haft eftir Mélenchon í The Economist.

Úr varð að engum svefni varð raskað. Þegar til kom mættu aðeins nokkrir kindarlegir en róttækir mótmælendur. Önnur mótmæli hafa þó verið fjölmennari en komið jafn litlu til leiðar.

Þrátt fyrir að hafa aðeins yfir 17 þingsætum að skipa, hefur Mélenchon leitt stjórnarandstöðu við Macron sem hann kallar „forseta ríka fólksins.“ Þannig reynir hann að fylla skarð stærri miðjusæknari flokka sem hefur verið illa stýrt.

Vinsældir forsetans hafa dvínað en popúlistinn Mélenchon hefur ekki grætt heldur. Skoðanakannanir sýna að fylgi flokksins hafi minnkað um 1,5 prósentustig frá kosningum. Mélenchon höfðar til kjarnans með því að flytja hálfrar klukkustunda einræður á YouTube vikulega og nær til unga fólksins sem líkar jarðbundni stíllinn og tengsl hans við Hugo Chavez og Podemos hreyfinguna á Spáni. Mélenchon hefur þó ekki tekist að ná breiðari stuðningi þrátt fyrir að umvefja sig franska fánanum og búa til ímynd föðurlandsvinarins. Mélenchon hefur sjálfur viðurkennt að Macron hafi leikið á hann og hafi yfirhöndina um sinn.

Vandræðin á lengst út til hægri hjá popúlistaflokknum þeim megin á litrófi stjórnmálanna eru þó jafnvel enn meiri en lengst út til vinstri. Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, hefur ekki sýnt nein merki þess að sækja fram á ný eftir að Macron sigraði hana auðveldlega í seinni umferð frönsku forsetakosninganna, 66% á móti 34%.

Raunar hefur staða hennar aðeins versnað síðan í kosningunum. Hún er nýr þingmaður með aðeins átta manna þingflokk og hefur ekki tekist að setja svip sinn á þingið. Þrátt fyrir takmarkaðan þingstyrk á flokkurinn í miklum innbyrðis deilum og næstráðandinn, Florian Philippot, hætti til þess að leiða sinn eigin flokk. Le Pen gæti jafnvel skipt um nafn á hinni 45 ára gömlu Þjóðfylkingu en flokkurinn reynir nú sem mest hann má að endurskapa ímynd sína. Flokksmenn voru meira að segja beðnir um að svara könnun um hvaða stefnumálum ætti að halda eftir og hverjum ætti að henda.

Að sama skapi er sótt að henni persónulega en franska þjóðþingið samþykkti að draga í burtu friðhelgi sem þingmenn njóta frá ákæruvaldinu en hún er til rannsóknar fyrir að hafa deilt grófum myndum af amerískum blaðamanni sem var myrtur en það er ólöglegt að dreifa slíkum myndum í Frakklandi. Þá er talið að frænka formannsins, Marion Maréchal-Le Pen gæti gripið í stjórnartauma flokksins þegar fram líða stundir til þess að leiða hann úr ógöngunum.

Þar til nýlega voru það álitin augljós sannindi að popúlistar, jafnt til vinstri sem og hægri, væru í mikilli sókn. Í fyrstu umferð forsetakosninganna fengu þeir 47% atkvæða. Þeir gætu risið upp að nýju en eins og sakir standa nú, lítur allt út fyrir að Macron og mögulega hægri-miðjan, standi betur að vígi.