„Gera má ráð fyrir því að í hita átaka á vettvangi stjórnmála á þessum vetri muni einstaka stjórmálamenn og jafnvel stjórnmálaleg öfl telja það sér til framdráttar að hnýta í fjármálafyrirtækin af misjöfnu tilefni. Við getum ekki annað en vonað að umræddir gangi fram af sanngirni og ábyrgð,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka og formaður Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).

SFF-dagurinn var haldinn í dag undir yfirskriftinni Leikreglur til framtíðar. Hann var helgaður þeim breytingum sem hafa verið gerðar og eru í burðarliðnum á regluverki fjármálamarkaðar beggja vegna Atlantsála.

Höskuldur skrifar í inngangi að ársriti SFF sem kom út í tilefni dagsins m.a. að fjármálafyrirtækin hafi ekki færst undan eða verið dragbítur á leiðréttingu gengislána heimilanna.

Þá skrifar Höskuldur í inngangi sínum að ofhlaðið regluverk auki kostnað fjármálastarfsemi, sem lendi á endanum á viðskiptavinum fjármálafyrirtækja. Það sama eigi við um skattheimtu og álögur.

„Þrátt fyrir að fjármálageirinn sé margfalt minni en hann var fyrir fjármálakreppuna skilar hann meiri tekjum í ríkissjóð í dag en hann gerði fyrir fimm árum. Ekkert lát virðist vera á þeim einbeitta vilja stjórnvalda að hækka álögur á fjármálageirann og lítið horft til þess að kostnaður heimila og fyrirtækja af fjármálaþjónustu eykst vegna þessa,“ skrifar Höskuldur.