Heimsins öflugasti örgjörvi fyrir zEnterprise, nýja gerð af IBM stórtölvum, verður kynntur á ráðstefnu Nýherja á morgun.

Örgjörvinn nefnist z196 og er tiftíðni hans 5.2 GHz. Örgjörvinn er með fjóra kjarna, inniheldur 1,4 milljarða smára á 512 mm yfirborði og byggir á DRAM tækni sem tryggir aukna afkastagetu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja og segir ennfremur að nýja zEnterprise lausnin auki afköst um 60% miðað við næstu kynslóð örgjörva á undan, z10 en hefur sömu orkuþörf.

IBM hefur fjárfest fyrir um einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala og eytt þremur árum í hönnun á zEnterprise tækni fyrir stórtölvur.

Ástæða þess að IBM hóf þróun og framleiðslu á z196 má rekja til aukinnar eftirspurnar frá bönkum og smásölum, þar sem gagnamagn hefur vaxið gríðarlega og fjöldi viðskiptafærslna hefur rokið upp úr öllu valdi og mun halda áfram að vaxa, að sögn IBM. Sem dæmi má nefna að gert er ráð fyrir að notendum netbanka og tengdrar fjármálaþjónustu í heiminum muni hafa fjölgað úr 55 milljónum árið 2009 í 894 milljónir árið 2015.