*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Innlent 17. mars 2018 14:23

Öflugt tæki til umbreytingar

Hagfræðingur telur æskilegt að lífeyrissjóðirnir stofni framtakssjóði utan um fjárfestingar í innviðum landsins.

Snorri Páll Gunnarsson
Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins (til vinstri) og Ásgeir Jónsson, hagfræðingur (til hægri).
Haraldur Guðjónsson

Framtakssjóður Íslands (FSÍ) skilaði góðu verki á líftíma sínum og mætti þeim markmiðum sem honum voru sett í upphafi. Sjóðurinn endurreisti átta fyrirtæki sem nú eru í traustum rekstri. Þá skilaði FSÍ fjárfestum sínum góðri ávöxtun. Reynsla FSÍ er til eftirbreytni fyrir atvinnulífið, fjármagnsmarkað og ríkissjóð og eru framtakssjóðir heppilegt fyrirkomulag til að knýja fram breytingar í rekstri fyrirtækja.

Þetta eru niðurstöður nýrrar úttektar á starfsemi FSÍ. Úttektin var unnin af Ásgeiri Jónssyni, hagfræðingi og dósent við Háskóla Íslands, og Alexander Frey Einarssyni hagfræðingi fyrir stjórn FSÍ. Ásgeir kynnti bókina á blaðamannafundi FSÍ á þriðjudaginn, þar sem forsvarsmenn sjóðsins greindu frá því að eiginlegum rekstri FSÍ væri lokið. Sjóðnum verður ekki slitið formlega fyrr en 2020. Lok starfsemi sjóðsins sem og útgáfa bókarinnar marka því viss tímamót og kaflaskil í uppgjöri þjóðarinnar við bankahrunið.

„Umræðan um Framtakssjóðinn og árangurinn af hans verkum hefur meira snúist um hugmyndir fólks í kringum hlutverk lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu frekar en arðsemi. En með hliðsjón af markmiðum sjóðsins var reksturinn farsæll og árangurinn góður,“ segir Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið.

FSÍ var stofnaður í desember árið 2009 af 16 lífeyrissjóðum. Síðar bættust Landsbankinn og VÍS í hóp eigenda. Samkvæmt stofnskrá hafði sjóðurinn þrígreind markmið. Honum var ætlað að ávaxta innborgað fé með fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem áttu sér vænlegan rekstrargrundvöll. Þá var hlutverk sjóðsins að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins árið 2008. Loks átti sjóðurinn að taka þátt í fjárfestingum til að stuðla að hagræðingu eða samruna fyrirtækja.

Ásgeir nefnir að af níu fyrirtækjum voru átta endurreist og eru þau nú hagkvæm fyrirtæki í góðum rekstri. Eitt félag, Icelandic Group, var selt í hlutum. Heildarverðmæti FSÍ frá stofnun er tæplega 91 milljarður, en sjóðurinn fjárfesti 43,3 milljarða af eigin fé og hagnaðist um 47,7 milljarða. Skilaði sjóðurinn því 110% ávöxtun á tíu ára líftíma sínum milli 2010 og 2020. Vænt innri ávöxtun FSÍ er 22,6% á ári.

Kínamúrar mikilvægir

En hvaða lærdóma má draga af starfsemi FSÍ?

„Starfsemi FSÍ sýnir hvernig framtakssjóðir geta verið verkfæri til að knýja fram breytingar innan fyrirtækja og ná auknum árangri í rekstri. Það á við í hallæri jafnt sem góðæri,“ segir Ásgeir.

„Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur ekki verið nýttur til að sækja fjármagn til vaxtar, yfirtöku eða umbreytingar. Þá er tekist á við nýsköpun, endurreisn, uppstokkun og skipulagsbreytingar fyrirtækja á einka-eiginfjár markaðnum með óskráð bréf. Bankarnir eru ekki lengur gerendur á eigin reikning og gangast ekki sjálfir fyrir umbreytingu fyrirtækja líkt og áður, enda eru þeir byggðir upp eins og viðskiptabankar. Það fylgja því einnig ýmis hvatavandamál þegar bankar reka sömu fyrirtæki og þau lána til.

Þá er lífeyriskerfið á Íslandi þannig uppsett að það er undir eftirliti og ábyrgð vinnumarkaðsfélaga – atvinnurekenda og verkalýðsfélaga – sem skipa í stjórnir einstakra lífeyrissjóða. Þar er umboðsvandi til staðar, þar sem það er ekki sjálfgefið að forystufólk þessara félaga setji hagsmuni sjóðsfélaga ávallt í fyrsta sæti. Það gerir sjóðunum erfiðara um vik að vera áhrifafjárfestar og býður upp á hagsmunaárekstra. Þá eru lífeyrissjóðirnir einnig í eðli sínu samvalsfjárfestar sem hafa ekki sérþekkingu á einstaka atvinnugreinum, fjárfestingum í óskráðum félögum eða frumkvöðlastarfsemi.“

Ásgeir telur því æskilegt að fjármunir til ávöxtunar séu útvistaðir til sérstakra stjórnunareininga, faglegra fjárfestingarsjóða sem sjá um ávöxtun í seilingarfjarlægð. Þeir hafi burði til að skapa næsta Össur eða Marel.

„Framtakssjóðum er einungis ætlað að starfa í takmarkaðan tíma og kaupa eignir með skýr markmið í huga er varða umbætur eða endurskipulagningu til þess að auka virði þeirra. Starfsmannateymi framtakssjóða skiptir mestu máli fyrir varanlegan viðsnúning í rekstri fyrirtækja. Þegar framtakssjóðir hafa lagt fram nægjanlega mikið eigið fé til að fara með ráðandi hlut í fyrirtæki verður mikilvægasta ákvörðunin sú að velja stjórnarmenn með faglegum hætti. Þeir hafa skýrt stjórnunarlegt sjálfstæði og velja framkvæmdastjóra og lykilstjórnendur sem hrinda breytingum í framkvæmd. Það tryggir að kínamúrar séu til staðar milli eigenda og stjórnenda sem dregur úr hagsmunaárekstrum.

Stuttur líftími, afmarkað starfssvið og mikil áhersla á skýra launahvata starfsmanna og stjórnarmanna stuðla einnig að því að unnið sé hratt og örugglega.“ Af þessum ástæðum hafi stofnun framtakssjóðs verið heppileg eftir hrun, en Ásgeir telur hana einnig rökrétta þar sem nýju bankarnir voru fullir af vandræðaeignum sem þeir voru seinir að vinna úr.

Þannig væri til að mynda heppilegra að framtakssjóður í eigu lífeyrissjóða, með skýrt stjórnunarlegt sjálfstæði fari með ráðandi hlut í vaxtarfyrirtæki fremur en að viðkomandi sjóðir raði sér upp sem áhrifalitlir hluthafar. Þá geti slíkt fyrirkomulag skapað nýja farvegi fyrir lífeyrissjóði til að dreifa eignum sínum og njóta mikilla ávöxtunar, svo sem með því að fjárfesta í uppbyggingu innviða hér á landi í stað þess að nota efnahagsreikning ríkisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.