Þegar gluggað er í nýja Íslands-skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) er nánast eins og höfundunum finnist ástandið vandræðalega gott, ekki síst þegar litið er til efnahagsþróunar í vestrænum hagkerfum undanfarin ár. Því þó að á Íslandi hafi orðið bankahrun hefur teygst óendanlega úr bankakreppunni í fjölmörgum þeirra landa, sem við berum okkur helst saman við.

Í skýrslunni er lýst efnahagsviðsnúningi eftirhrunsins, flugi ferðaiðnaðarins, uppgreiðslu opinberra skulda og víðtækri efnahagsuppbyggingu. Sé nú svo komið að í efnahagslegum skilningi hafi Íslendingar það betra nú en kortér í hrun.

Talið er að framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi séu góðar, en þó er varað við að í efnahagslífinu blundi enn ýmsir veikleikar. Það eigi einnig við á stjórnmálasviðinu, meirihlutinn sé tæpur og traust á helstu stofnunum enn af skornum skammti.

Hagvöxtur á Íslandi er sá mesti meðal ríkja OECD, en einnig er minnt á að lítil, opin hagkerfi eins og Íslands séu viðkvæm fyrir breyttum aðstæðum og hagsveiflur því miklar, þó að hagvaxtarskeiðið hafi verið afar langt að þessu sinni.

Spenna á vinnumarkaði

OECD segir þó að þrátt fyrir að horfur séu góðar sé töluverð hætta á ofhitnun. Bent er á að kjarasamningar hafi verið gerðir af nokkru örlæti undanfarin ár, en þrátt fyrir það vilji ýmis verkalýðsfélög sækja enn frekari kjarabætur. Stofnunin telur mikilvægt að auka aðhald í opinberum fjármálum og að peningastefnan þurfi að miðast við að bregðast megi við auknum verðbólguvæntingum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .