Það má segja að það sé orðin regla frekar en undantekning að nokkur hundruð manna biðröð og eftirvænting fari saman þegar Íslendingar opna Apple-verslun á Norðurlöndum. Í morgun opnaði 15. verslunin og í þetta skiptið í Álaborg en hún er jafnframt sú sjöunda í Danmörku.

"Eftirvæntingin lét ekki á sér standa í þetta skiptið og var kominn vísir að biðröð strax í fyrradag," segir í tilkynningu frá Öflun ehf, sem rekur verslanirnar.

"Það er gaman að sjá hve vel Danir taka okkur sem fyrr. Þeir kunna greinilega að meta þá hluti sem við og auðvitað Apple höfum verið að gera. Nú þegar Apple-tölvur eru einnig hæfar til að keyra Windows-forrit má segja að það séu engin takmörk fyrir vextinum og við erum örugglega bara rétt að sjá upphafið," segir Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Öflunar.

"Á þeim þremur og hálfa ári frá því að Öflun var stofnað hefur vöxturinn verið gríðarlegur og nú eftir yfirtöku á norska félaginu Office Line er velta komin í 7 milljarða króna. Um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu í fimm löndum og þar af 20 manns hérlendis.

Íslenskir Apple-neytendur hafa ekki farið varhluta af þessum uppgangi þar sem ein stærsta og jafnframt glæsilegasta Apple-tölvuverslun Norðurlanda opnaði í apríl s.l. í Kauphallarhúsinu að Laugavegi 182 og mun ein önnur opna í Kringlunni í september," segir í tilkynningunni.