*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Erlent 14. júlí 2019 15:04

Ofmetnaður og langvin vandræði

Vandamál Deutsche Bank gætu haldið áfram þrátt fyrir þrátt fyrir stórfelldar breytingar.

Andrés Magnússon

Deutsche Bank hefur um allanga hríð glímt við endalaus ótíðindi af rekstri eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær og sömuleiðis hefur hvert hneykslismálið á fætur öðru ekki orðið til þess að efla tiltrú á bankanum eða bæta fjárhaginn.

Þrátt fyrir að flestir fagni fyrrnefndum breytingum og þó fyrr hefðu verið, þá hafa þær einnig orðið mönnum tilefni til gagnrýni á rekstrarhætti bankans. Þannig hafa ýmsir yfirmenn, sem ýmist hefur verið sagt upp eða ýtt til uppsagnar, fengið með eindæmum örláta starfslokasamninga að skilnaðargjöf, þrátt fyrir að þeir hafi einmitt verið látnir fara vegna þess að þeir skiluðu ekki þeim árangri sem vænst var af þeim.

Þess vegna horfa enda margir fullir grunsemda á þann feikilega mikla kostnað, sem ráðgert er að það kosti að minnka bankann, og spyrja hvort þar inni sé ekki frekari sóun og bruðl. Ef vel tekst til og bankinn kemst aftur á skrið er sá fórnarkostnaður ljóslega verjandi, þó auðvitað kysu menn að hann yrði töluvert minni. Hins vegar er engan veginn gefið að þessar breytingar skili árangri og alls ekki á hreinu að kostnaðaráætlanirnar standist. Það væri ekki í fyrsta sinn sem skipulagsbreytingar banka færu öðru vísi en ætlað var.

Ekki er nóg með að bankinn hafi verið rekinn með afar dræmar tekjur af viðskiptabankastarfsemi sinni, því hann hefur sem fyrr segir átt mjög undir högg að sækja í fjármálabankastarfsemi. Og varla kemur það nokkrum á óvart að hlutabréfamiðlunin skuli látin sigla sinn sjó, hún hefur verið rekin með 600 milljóna evra tapi ári að undanförnu. Svo má spyrja til hvers Deutsche Bank ætli að halda í þá deild, sem annast skráningu og hlutafjárútboð fyrir félög, það er tæpast hluti af kjarnastarfsemi bankans úr þessu og gefur til þess að gera lítið í aðra hönd. Flest félög á þeim buxunum vilja hins vegar sennilega að sami banki annist svo áframhaldandi miðlun bréfanna, svo þau eru líkleg til að leita annað. Rétt eins og eignastýringarfélög kjósa yfirleitt að láta sama fjárfestingarbanka annast miðlun hlutabréfa og skuldabréfa. Af hverju ættu þeir að kjósa meira flækjustig og aukinn kostnað?

Hins vegar er tæplega hægt að andæfa þeirri ákvörðun bankans að hlutabréfamiðlunin svari seint kostnaði. Ekki aðeins út af fyrrnefndu tapi, heldur vegna þess að fyrirtæki fjármagna sig í æ minni mæli á hlutabréfamarkaði. Í Bandaríkjunum hefur virkum, skráðum félögum á hlutabréfamarkaði fækkað um nánast helming á 20 árum. Svipaða sögu er að segja í Evrópu, þar sem þó er minni hefð fyrir skráningu almenningshlutafélaga; í Þýskalandi hefur skráðum félögum fækkað um þriðjung á liðnum áratug. Bæði er þar eftir mun minnu að slægjast, en eins hefur regluverkið snaraukist, litlu síður en á fjármálamarkaði.

Helsta ályktunin af þessum breytingum er sú að Deutsche Bank sé loksins –  líkt og svo margir kollegar í Evrópu – að gefast upp á að veita alhliða fjármálaþjónustu og ætli að verja vígin. Rétt eins og UBS leggur nú mesta áherslu á hlutabréfamiðlun, Credit Suisse á eignastýringu og Barclays á fjárfestingarbankastarfsemi (þeir ætla sér að sópa upp eftir undanhald Deutsche), þá virðast Þjóðverjarnir seint og um síðir hafa áttað sig á því – eða sætt sig við –  að þeir hafa ekki bolmagn eða tíma til þess að láta draumana rætast. Deutsche Bank mun því nú leggja mest upp úr verðbréfum með fastri (óverðtryggðri) ávöxtun, þar sem hann er á heimavelli.

Ótryggur heimavöllur

Samt sem áður er það einmitt hinn eiginlegi heimavöllur, sem er vandinn. Flestir bankar geta þegar í nauðirnar rekur fallið frá vaxtaráformum á framandi slóðum og einbeitt sér að heimamarkaðinum, þar sem stórveldið var byggt upp. Það á hins vegar trauðla við um Deutsche Bank, sem er varla þýskur banki lengur. Þýski bankamarkaðurinn er að miklu leyti undirlagður af hálfopinberum sparisjóðum eins og Landesbank, Sparkasse og kaupfélögunum, en þrátt fyrir nafnið og umsvifin hefur Deutsche Bank aldrei haft almennilega markaðshlutdeild í viðskiptabankastarfsemi í Þýskalandi, hvort heldur er fyrir einstaklinga eða fyrirtæki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér