Áformað er að ljúka við framkvæmdir við byggingu kísilvers PCC á Bakka við Húsavík í desember, en framkvæmdirnar eru nú um það bil hálfnaðar að því er segir í frétt RÚV .

Vinna nú tæplega 200 manns við framkvæmdirnar, en þýska fyrirtækið SMS er aðalverktaki þeirra, en auk þess er um tugur verktaka sem sinnir ýmsum þáttum.

Fyrirmaður framkvæmdanna, Jörg Dembek, segir að samtals starfi nú um 190 manns á öllu framkvæmdasvæðinu, en auðvitað séu byggingarnar mislangt á veg komnar.

Kol og trjákurl notað við framleiðsluna

Byrjað er að steypa grunn sumra húsanna, en hráefnageymslann sé til að mynda tilbúin, en þar verða kol og trjákurl sem brennd eru til að búa til kísilmálminn geymd. „Þannig að þegar á heildina er litið þá er um helmingur verksins að baki,“ segir Dembek.

Einnig er verksmiðjuhúsið sjálft að taka á sig mynd, en það er, eins og flestar byggingar á svæðinu, stálgrindarhús. Var húsið sérstaklega styrkt því það er reist á virku jarðskjálftasvæði, en stál var meðal annars valið sem byggingarsvæði vegna þess, sem og með tilliti til veðurfars.

„Vinnan við uppsetninguna sýnir nú að báðir ofnarnir hafa risið. Nú þegar má því sjá hjarta verksmiðjunnar,“ segir Dembek um tækjabúnað verksmiðjunnar, en hann segir verkið í heild á áætlun.

„Já, verktakinn hefur tjáð okkur að allt sé á áætlun, svo að við stöndum við umsaminn dag í desember á þessu ári.“