Búið er að bera til baka fréttir þess efnis að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætli að kynna skýslu um sæstreng fyrir breskum fjárfestum. „Forsetinn sagði ekki það sem vitnað var til,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Breska dagblaðið Guardian sagði á sunnudag forsetann ætla í vikunni að kanna hvort bresk stjórnvöld vilji styðja fjárhagslega við lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands.

„Forsetinn hefur auðvitað komið að umræðu um þau mál og ekkert óeðlilegt við það að forsetinn tjái sig um slík mál,“ sagði Sigmundur í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi eftir að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, spurði hann út í umleitanir Ólafs Ragnars í Bretlandi og hvort hann fari í viðræðurnar um stuðning Breta í umboði ríkisstjórnarinnar.

Sigmundur sagði svo ekki vera en bætti við að mikill áhugi sé á sæstrengnum, ekki síst í Bretlandi.

„Þeir eru mjög áhugasamir um þetta og því líklegt að forseti Íslands hafi verið spurður út í þetta,“ sagði Sigmundur.