Oft er kalt á Íslandi en sjaldan hefur kuldinn níst jafn harkalega og nú. Landsmenn sem oft hafa litið á septembermánuð sem kærkomna framlengingu á stuttu íslensku sumri þurfa nú að þola gríðarlegan kulda í veðri og í þokkabót nánast alkul á gjaldeyrismörkuðum.

Króna okkar Íslendinga er í sögulegu lágmarki og lýsa frosthörkur markaða sér þannig að nánast engin viðskipti fara fram með hana lengur. Þurrð lausafjármarkaða og hræðsla markaðsaðila við hávaxtamyntir eins og íslensku krónuna virðist ráða þar mestu um.

Þeir sem á annað borð vilja versla með krónuna vilja selja hana og aðrir halda að sér höndum. Þessi staða veldur því að krónan hrapar ört dag eftir dag og bág staða hennar virðist vera að koma landsmönnum í einskonar vistarband. Það hefur aldrei verið dýrara að stunda viðskipti við útlönd og hvað þá að ferðast til þeirra. Slíkt er því ekki á færi hvers sem er.

Landsmenn eru því fastir í kuldanum og hljóta því að spyrja sig – hvernig á að bregðast við?

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .