Olís er rótgróið og sögufrægt fyrirtæki, með góða fyrirtækjamenningu, öflugan hóp starfsfólks og heilt yfir mjög sterka innviði. Það eru miklar breytingar nú þegar búnar að eiga sér stað á eldsneytismarkaði vegna orkuskipta og frekari breytingar eru í farvatninu. Við þurfum því að aðlaga skipulag starfseminnar og nýta þessa sterku innviði með arðbærum og skynsamlegum hætti til lengri tíma,“ segir Frosti Ólafsson, nýr framkvæmdastjóri Olís. Hann fékk að kynnast fyrirtækinu á seinni hluta síðasta árs í gegnum ráðgjafastörf fyrir móðurfélagið Haga.

Frosti var áður framkvæmdastjóri ORF líftækni en lét af störfum í apríl 2020 eftir tæplega fjögurra ára starf. Hann taldi sig þá hafa framkvæmt helstu breytingarnar þar sem meginstyrkleikar hans nýttust.

„Þegar ég tók við var ORF vel lukkaður sproti sem átti eftir að þroska innviðina, skerpa á stefnu og skipuleggja starfsemina til að geta staðið undir áframhaldandi vexti. Það tókst vel til, tekjur tvöfölduðust og arðsemi jókst verulega á mínum tíma hjá ORF. Næsti kafli í vegferð fyrirtækisins fólst fyrst og fremst í sölu- og markaðsstarfi á erlendum mörkuðum og ég taldi meginstyrkleika mína liggja á öðrum sviðum. Mín afstaða er almennt sú að það er ekki alltaf ákjósanlegt, sérstaklega með hraðvaxtarfyrirtæki eins og ORF, að vera með sama forstjóra í mjög langan tíma. Fólk kemur með mismunandi styrkleika að borðinu og það er oft hollt fyrir fyrirtæki að skipta um í brúnni.“

Frosti var þar áður framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og starfaði á skrifstofu McKinsey & Company í Kaupmannahöfn árin 2011-2013. Hann kom að hinni frægu 2012 McKinsey-skýrslu um vaxtarmöguleika Íslands til framtíðar.

Spurður hvaða áskoranir standi frammi fyrir íslenska hagkerfinu í dag, nefnir hann að hið opinbera þurfi að tryggja sterka umgjörð fyrir atvinnulífið, m.a. með því að leggja áherslu á fjárfestingar og innviðaframkvæmdir fremur en aukið umfang í rekstri. Auk þess vill Frosti sjá ferðaþjónustuna einblína á að byggja upp verðmæti fremur en magn þegar greinin fer af stað á ný. Á síðustu árum hafi ferðaþjónustan í vissum skilningi rutt öðrum greinum frá með sterku raungengi og mikilli vinnuaflsþörf. Hann segir því tækifæri fyrir hagkerfið að koma nú upp dreifari tekjustoðum og koma sterkari út úr kófinu.

Frosti er giftur Ásdísi Ólafsdóttur, viðskiptafræðingi, sem stundar nú sálfræðinám við HR. Þau kynntust árið 2012 fyrir tilstuðlan sameiginlegs vinar. „Hún var nú ekki síst ástæðan fyrir því að ég ákvað að láta þetta gott heita hjá McKinsey og flutti heim,“ segir Frosti en þau eiga saman tvö börn, Iðunni Jóhönnu og Baldur Hrafn. Þau hjónin fóru nýlega í þriggja vikna ferðalag til Spánar og Norður-Ítalíu og náðu þar að vinna upp tuttugu mánuði af ferðaleysi að sögn Frosta.