Íslenska ríkið þarf að óbreyttu að endurgreiða þrotabúi Glitnis nokkra milljarða íslenskra króna vegna oftekinna skatta. „Við teljum að þetta séu um sex milljarðar króna,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að skattar sem íslenska ríkið heimti af Glitni vegna gjaldársins 2010 hefðu verið ofteknir. Ástæðan er sú að afturvirkni laga sem bönnuðu fjármálafyrirtækjum í slitameðferð að samskatta sig með dótturfélögum sínum fyrir tekjuárið 2010 var talin ólögmæt af dóminum.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að embætti ríkisskattstjóra í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti meti nú hvort dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. „Eðli máls samkvæmt þá íhuga málsaðilar alltaf hvort eigi að áfrýja eða ekki,“ segir Skúli Eggert í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segist ekki vilja tjá sig um þær fjárhæðir sem séu í húfi í málinu. Áfrýjunarfrestur rennur út 11. júní næstkomandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .