*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 9. júní 2018 13:09

Ófullnægjandi áhættustýring hjá Arion

Innri endurskoðun Arion banka taldi áhættustýringu innan bankans ófullnægjandi eftir lánveitingar til United Silicon.

Ritstjórn
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Haraldur Guðjónsson

Innri endurskoðun Arion banka telur áhættustýringu og innra eftirlit Arion banka hafa verið ófullnægjandi á árunum 2016 og 2017 að því er kemur fram í skráningarlýsingu Arion banka. Þá er áhættustýring innan fyrirtækjasviðs Arion banka nefnd og fjárfestingin í United Silicon nefnd sérstaklega.

Arion banki var aðallánveitandi United Silicon en afskrifaði tæplega fimm milljarða vegna þeirrar fjárfestingar á síðasta ári. United Silicon var lýst gjaldþrota í janúar eftir að hafa verið í greiðslustöðvun frá því í ágúst. Þá taldi innri endurskoðun bankans að einnig þurfi að efla verkferla bankans er snúa að vörnum gegn peningaþvætti.

Standa hafi mátt betur að bakgrunnsskoðun

Í skriflegu svari Arion banka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að aðkoma bankans að uppbyggingu United Silicon hafi verið skoðuð ítarlega innan bankans og mikilvægt sé að læra af málinu. Í öllum aðalatriðum hafi greiningarvinna sem lá til grundvallar ákvörðunartökunni verið góð þó standa hefði mátt betur að bakgrunnsskoðun. „Horft var til fjölmargra þátta við ákvörðunina; öll leyfi voru til staðar, eftirspurn og markaðsverð afurðarinnar var gott, tæknin var margreynd, stjórnvöld og sveitarfélagið voru áfram um framkvæmdina og að verkefninu komu innlendir og erlendir sérfræðingar og fjárfestar. Jafnframt var það niðurstaðan að betur hefði mátt standa að bakgrunnsskoðun í aðdraganda verkefnisins og innri endurskoðun bankans benti á atriði sem sneru að innri stjórntækjum og áhættuvitund starfsfólks við eftirfylgni með lánveitingunni,“ segir í svari bankans.

„Arion banki hefur gripið til ýmissa ráðstafana á undanförnum mánuðum til þess að styrkja frekar stjórn- og eftirlitskerfi sín, t.d. hefur verið skerpt á aðskilnaði starfa við þjónustu og eftirlit í útlánaferli, ítarlegri útlánareglur hafa verið innleiddar sem og ítarlegri ferlar um bakgrunnsathuganir,“ segir jafnframt í svarinu. Þá hafi margir sem komu að verkefninu verið blekktir.

„Þrátt fyrir ítarlega greiningarvinnu í aðdraganda verkefnisins brustu forsendur og margir voru blekktir, svo sem hluthafar, lánveitendur, opinberir aðilar og eftirlitsstofnanir og hefur meint sviksemi verið kærð til embættis héraðssaksóknara,“ segir í svari Arion banka. Magnús Garðarsson, stofnandi félagsins, hefur verið kærður fyrir skjalafals og fjárdrátt úr United Silicon.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.