Fyrirtækin Luxor tækjaleiga ehf og Ofur hljóðkerfi ehf hafa tilkynnt um sameiningu fyrirtækjanna undir nafni Luxor. Ofur hefur undanfarin ár byggt upp hljóðkerfaleigu fyrir tónleika og skemmtanaiðnaðinn, en Luxor þekkja margir sem eina stærstu ljósa, skjá,- og sviðsleigu landsins í viðburðum fyrirtækja og markaðstengdra viðburða á borð við skautasvell Nova á Ingólfstorgi.

Luxor sá einnig til að mynda um tæknimál í sjónvarpsþáttunum Voice Ísland og Biggest Loser Ísland. Með sameiningunni verður til ein öflugasta tækjaleiga landsins í viðburða-, tónleika-, sviðslista- og sjónvarpsiðnaðinum segir í fréttatilkynningu.

Leigan kemur til með að geta boðið heildar tæknilausnir í mynd, hljóð og lýsingu fyrir allar stærðir viðburða. Bæði fyrirtækin eru endursöluaðilar þekktra vörumerkja í iðnaðinum og mun því vöruúrval sameinaðs fyrirtækis gera því kleift að þjónusta einstaklinga, menningarhús, skemmtistaði og verkfræðistofur betur en áður.

Framkvæmdastjóri sameinaðs félags verður Bragi Reynisson núverandi framkvæmdastjóri Luxor. „Sameining félaganna veitir Luxor byr undir báða vængi og styrkir hið sameinaða félag til að sinna þörfum viðskiptavina þess,” segir Bragi.

„Um tvö rótgróin félög er að ræða með ólíka viðskiptahópa og því eru kostir sameiningar ótvíræðir. Viðskiptavinir félaganna eiga eftir að finna vel fyrir sameiningunni í straumlínulöguðu vöruframboði.“

Nýr stjórnarformaður sameinaðs félags verður Óli Valur Þrastarson sem segir spennandi fjárfestingar vera framundan í hljóðkerfum og ljósabúnaði hjá fyrirtækinu. „Við munum starfa á mjög breiðum grunni og sameinuð velta félaganna verður um 300 milljónir á ári,“ segir Óli Valur.

„Kostir þessarar sameiningar eru augljósir, styrkur fyrirtækjanna hefur legið á ólíkum sviðum innan sama iðnaðar og því bæta þau hvort annað vel upp. Persónulega hlakka ég mest til að vinna með þessu sterka teymi til framtíðar.”

“Við erum afar ánægðir með að fá Óla Ofur í teymið og hluthafahópinn í sameinuðu fyrirtæki og hlökkum til að halda áfram að byggja upp öflugt fyrirtæki á breiðari grunni en áður” segir Pétur Óli Gíslason framkvæmdastjóri KPR ehf sem er kjölfestufjárfestir í hinu sameinaða félagi.

Með sameiningunni verður til öflugt fyrirtæki sem getur þjónustað allt sem við kemur tæknilegri hlið viðburða af öllum stærðum og gerðum.  Til að mynda mun sameinað félag bjóða upp á vörur frá Pioneer DJ, Digico, Robe, Anolis, Philips Varilight, Pharos, CLS og fjölda annarra birgja.