Á síðustu sjö árum hefur heimsframleiðslan tvöfaldast og er greinin talin velta um 11 milljörðum punda á ári, tæplega 2.000 milljörðum ÍSK. Bretar ætla sér væna sneið af kökunni og hefur breska ríkisstjórnin heitið rúmlega 70 milljóna ÍSK framlagi til stofnunar Sjávarþangsstofnunar á háskólastigi í bænum Oban í Skotlandi.

Stofnunin verður sú fyrsta sinnar gerðar og verður meðal annars ætlað það hlutverk að vera nýsköpunarfyrirtækjum innan handar, deila rannsóknum og þekkingu á þessu sviði og starfrækja þjálfunarbúðir.

Þang og þörungar gegna mikilvægu hlutverki í því að fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu og stuðla að jafnvægi í vistkerfinu en um leið hafa þeir áunnið sér orðspor sem ofurfæða.