Eins og allir vita er mikilvægt að létta lundina annað slagið með fíflagangi. Ljótupeysudagar eru ein af algengari uppákomum innan fyrirtækja landsins. Þótt það hljómi eins og einfaldasta verk í heimi að vinna í ljótupeysukeppni þá þekkja þeir sem gramsað hafa svo dögum skipti í rykföllnum pappakössum eftir einni gamalli frá nítján hundruð áttatíu og eitthvað að það getur reynst þrautin þyngri að finna réttu peysuna, hvað þá ætli viðkomandi að eygja von um að komast í úrslit.

Alltaf skal einhver mæta uppstrílaður í skærgrænni peysu með mynd af skælbrosandi forljótu blikkandi hreindýri klístruðu yfir ístruna. Eins og sjá má hér hefur lífið upp á margt fleira að bjóða en ljótupeysudaga.

Starfsfólk Kauphallarinnar og Verðbréfaskráningar lyftir sér upp öðru hverju og setti upp ljót bindi. Hjá Nova gátu starfsmenn látið drauma sína rætast og klætt sig upp í búningi uppáhalds ofurhetju sinnar. Og svo má lengi telja…

„Þetta hefur alltaf verið svona, allavega lengi,“ segir Kristín Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Kauphallarinnar, en í febrúar grófu allir starfsmenn Kauphallarinnar og Verðbréfaskráningu upp misfalleg bindi úr geymslum sínum á svokölluðum Ljótubindadegi. Það er Hreppsnefndin, ein af fjórum nefndum starfsmanna Kauphallarinnar, sem skipulagði daginn. Talsverður hressleiki einkennir lífið í Kauphöllinni og sér starfsmannafélagið Innherjar um að halda stuðinu uppi.

„Þetta er mjög gaman því folk þekkir mig ekki,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. Starfsfólk Fríhafnarinnar dressaði sig upp í tilefni af öskudeginu og mættu 45 þeirra í grímubúningi. Sjálf var Ásta Dís í Batman-búningi allan daginn.

„Við leggjum mikið upp úr því að það sé skemmtilegt að vinna hjá Nova, að Nova sé skemmtilegasti vinnustaður í heimi,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova. Mikið fjör var hjá fyrirtækinu í ágúst en þá var ofurhetjudagurinn haldinn í tilefni af kosningu um starfsmann mánaðarins. Starfsmaðurinn er valinn með því að starfsfólk sendir inn hrós, flestir fleiri en eitt, til samstarfsmanna sinna sem er svo sent áfram á þann sem fær hrósið. Að lokum eru talin saman atkvæðin sem úrskurða hver starfsmaður mánaðarins er. Allir starfsmenn Nova mættu í búningi – sumir sem höfðu verið sérhannaðir við eldhúsborðið.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunar um starfsmannaglens á vinnustöðum, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil sem og launum helstu knattspyrnumanna. Að auki er margt, margt fleira....