Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag eftir að hafa lækkað síðustu fimm daga en mestu munaði um 73,3% hækkun þýska bílaframleiðandans Volkswagen í Kauphöllinni í Frankfurt í dag.

Félagið varð um tíma í dag stærsta fyrirtæki heims miðað við markaðsverð þegar markaðsvirði þess náði um 370 milljörðum dala. Þannig sló félagið bandaríska olíurisann Exxon sem en markaðsvirði þess er um 343 milljarðar dalir.

Skýringuna á þessu markaðsskoti má finna í því að margir fjárfestar sem höfðu selt bréf sín í síðustu viku á hálfgerðri brunaútsölu og höfðu ekki lokað viðskiptunum, reyndu hvað þeir gátu í dag og í gær að kaupa bréf sín aftur.

Porche tilkynnti í gær að félagið hefði áhuga á að kaupa Volkswagen og við það hafa bréf í félaginu hækkað gífurlega.

Hins vegar lækkuðu bankar og fjármálafyrirtæki nokkuð í dag. Til dæmis lækkaði Barclays um 6%, HBOS um 7,5%, Credit Agricole um 15,2% og Deutsche Bank um 11,3%.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 2,2% en hafði um tíma hækkað um tæp 5%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan 1,9% í dag, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,4% en í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 11,3% vegna þeirra atburða sem fjallað er um hér að ofan.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan 1,6% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,6%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 1,3% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,2%.