Össur hf. mun seta nýtt hátæknihné á markað nú í októbermánuði og verður þetta dýrasta vara sem fyrirtækið hefur sent frá sér. Þetta nýja hné mun kosta 18.000 dollara eða tæplega 1,3 milljónir króna. Þetta kom fram á fundi FVH og Kauphallarinnar í morgun og þar benti Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, á að verði væri jafnhátt og meðalbíll kostar í Bandaríkjunum.

Til þessa hafa flest þau gerfihné sem Össur hefur selt kostað um 2.000 dollara en þetta nýja hné mun bæta hreyfigetu fólks verulega. Það er algerlega sjálfvirkt og lagar sig eftir þörfum notenda þess hverju sinni. Fólk á því að geta gengið, hlaupið og klifrað jöfnum höndum og tölvubúnaður sá sem stýrir hnénu á að sjá til þess að þetta verði fólki vandkvæðalítið. Af þessu að dæma virðist vera um byltingarkennda nýjung að ræða hjá Össuri.